Ragnheiður Jónsdóttir | desember. 16. 2011 | 13:00

Afmæliskylfingur dagsins: Trevor Immelman – 16. desember 2011

Trevor John Immelman er afmæliskylfingur dagsins, en hann fæddist 16. desember 1979, í Höfðaborg, Suður-Afríku og er því 32 ára í dag.  Trevor er atvinnukylfingur, frægastur fyrir að hafa sigrað eitt af risamótum PGA, Masters, árið 2008 og síðan einnig fyrir að hafa spilað við Gústa, fv. framkvæmdastjóra GK, en Immelman kom til Íslands og hefir m.a. spilað Hvaleyrina (Sjá skemmtilegt viðtal Golf1 við Gústa (Ágúst Húbertsson) með því að smella HÉR:)

Trevor Immelman kemur úr mikilli „golffjölskyldu“ en pabbi hans, Johan, er fyrrum framkvæmdastjóri  „Sólskinstúrsins“ (ens.: the Sunshine Tour) í Suður-Afríku, þ.e. aðalmótaraðar atvinnukylfinga í Suður-Afríku, samsvarandi Evróputúrnum eða PGA mótaröðinni í Bandaríkjunum.

Trevor byrjaði að spila golf 5 ára gamall. Hann var í Hottentotta Holland High School og sigraði US Amateur Public Links mótið árið 1998 – 19 ára gamall.

Trevor Immelman gerðist atvinnumaður árið 1999.

Árið 2000 spilaði hann aðallega í 2. deild golfsins í Evrópu, þ.e. á Challenge Tour og lauk tímabilinu þar í 10. sæti á Order of Merit.  Hann fékk keppnisrétt á Evróputúrnum 2001 og hefir náð að verða meðal 20 efstu á Order of Merit þrisvar sinnum. Hann hefir sigrað 4 sinnum á Evróputúrnum og 2004 varð hann fyrsti kylfingurinn til þess að sigra South African Open tvisvar í röð en það hafði engum tekist síðan Gary Player náði þeim árangri í kringum 1970.

Árið 2003 sigraði Immelman WGC-World Cup fyrir Suður-Afríku í félagi við Rory Sabbatini. Árið 2005 var hann í alþjóðaliðinu, sem tapaði í Forsetabikarnum. Trevor hefir í meira mæli spilað á PGA Tour eftir að hann hlaut 2 ára undantekningu til þess að spila á mótaröðinni vegna þátttöku hans í 2006 og 2007 í keppninni um Forsetabikarinn. Árið 2006 eftir að Immelman sigraði í fyrsta sinn PGA Tour, þ.e. í Cialis Western Open mótinu varð hann í fyrsta sinn meðal 15 efstu á heimslistanum. Það var besti árangur hans frá því hann var efstur á Sunshine Tour Order of Merit keppnistímabilið 2002/03.

Trevor kvæntist æskuástinni Carmenítu, 6. desember 2003 (sjá mynd af Carmenítu hér að ofan). Hann dró sig úr keppni á Opna breska árið 2006 til þess að geta verið viðstaddur fæðingu fyrsta barns þeirra.

Árið 2006 var hann meðal topp 10 á peningalista PGA Tour og hlaut titilinn „nýliði ársins“. 

Í september 2007 var Trevor Immelman valinn af Gary Player til þess að taka þátt í 7. Forsetabikarnum sem fór fram í Royal Montreal Golf Club, Canada. Alþjóðaliðið tapaði með 14.5 stigum fyrir liði Bandaríkjanna, sem hlaut 19.5 stig.

Þann 13. desember 2008 dró Immelman sig úr South African Airways Open vegna eymsla í rifjum og öndunarerfiðleika. Hann undirgekkst uppskurð 18. desember 2007 og læknarnir fundu æxli á stærð við golfbolta í þind Immelmans. Æxlið reyndist vera svokallað kalkað trefjaæxli (ens. calcified fibrosis tumor). Eftir nokkrar rannsóknir var talið að það væri góðkynja. Engu að síður urðu meðferðin og bati Trevors þess valdandi að hann missti af fyrstu 8 vikunum á PGA Tour árið 2008. Engu að síður sigraði Immelman Masters risamótið, þegar hann loks sneri aftur 2008. Þrátt fyrir að fá skramba á 70 holunni, á 16. braut, sem er par-3, lauk Immelman keppni með skor upp á -8 undir og sigraði þann, sem allir höfðu spáð sigri, Tiger Woods, með 3 höggum.

Í júní 2009 tilkynnti Trevor að hann myndi draga sig úr Opna bandaríska vegna liðabólgu í vinstri úlnlið og olnboga.

Trevor kom hægt tilbaka, tók þátt í 19 mótum á bandaríska PGA árið 2010; náði niðurskurði 9 sinnum og vann sér inn $422,171. Árið í ár, 2011 hefir verið honum betra. Af 25 mótum sem hann spilaði í á bandaríska PGA náði hann niðurskurði 18 sinnum og var þar af 8 sinnum meðal 25 efstu og tvisvar topp-10 í mótunum. Í ár meira en tvöfaldaði hann líka verðlaunafé sitt, hlaut $1,165,604. Trevor Immelman er sem stendur í 129. sæti heimslistans yfir bestu kylfinga heims.

Immelman hefir oft tekið þátt í góðgerðarmótum kennara síns og vinar, Gary Player, um allan heim til þess að hjálpa til við að safna peningum handa fátækum börnum og þeim, sem eru hjálpar þurfi.

Heimild: Wikipedia

Þessi grein greinarhöfundar hefir áður birst á iGolf.is, í nóvember 2010, en birtist hér aðeins breytt.

Aðrir frægir kylfingar sem eiga afmæli í dag eru m.a.:  Steven Spray, 16. desember 1940 (71 árs);  Sigurður Kristinsson, 16. desember 1951 (60 ára – Til hamingju með stórafmælið!) ; Ágústa Þóra Laxdal Þórisdóttir, 16. desember 1947; Brian Clark, 16. desember 1963 (48 ára);  Cathy Johnston-Forbes, 16. desember 1963 (48 ára);  Brent Franklin, 16. desember 1965 (46 ára);  Page Dunlap, 16. desember 1965 (46 ára);  Wendy Doolan, 16. desember 1968 (43 ára);  Connie Isler, 16. desember 1983 (28 ára).

Ef þið viljið koma að afmælisgrein eða láta afmæliskylfings getið í upptalningu kylfinga, sem eiga afmæli hafið samband við golf1@golf1.is