Ragnheiður Jónsdóttir | desember. 1. 2011 | 12:00

Afmæliskylfingur dagsins: Lee Trevino – 1. desember 2011

Afmæliskylfingur dagsins er Lee Trevino, en hann fæddist 1. desember 1939, í Dallas, Texas og því 72 ára í dag.

Hann er oft uppnefndur „Supermex“ eða „The Merry Mex“ vegna mexíkansks uppruna síns, en móðir hans, Juanita, er mexíkönsk og Lee mikið átrúnaðargoð meðal mexíkanskra golfaðdáenda.

Lee gerðist atvinnumaður í golfi árið 1960 og hefir því spilað leikinn göfuga í 51 ár á atvinnumannsstigi og á þeim tíma sigrað alls 89 sinnum, þar af 29 sinnum á PGA, 29 sinnum á Champions Tour og 31 sinnum á öðrum mótaröðum.

Af helstu afrekum Lee mætti nefna að hann hefir í 6 skipti sigrað á risamótum golfsins, Opna bandaríska árin 1968 og 1971; Opna breska árin 1971 og 1972; PGA Championship, 1974 og 1984.

Eina risamótið, sem Lee tókst aldrei að sigra á, var Masters, en besti árangur hans í því móti var að verða T-10 árin 1975 og 1985.

Lee Trevino var tekinn í frægðarhöll kylfinga (World Golf Hall of Fame) árið 1981 og hefir unnið til fjölda verðlauna og viðurkenninga, líklega allra sem merkilegastar þykja innan golfheimsins, þ.á.m. var hann PGA kylfingur ársins 1971, vann Vardon Trophy 1970, 1971, 1972, 1974 og 1980; Byron Award, 1980 o.fl.

Lee spilar sem stendur á Champions Tour og starfar m.a. við gerð golfkennslumyndskeiða.

Heimild: Wikipedia

Aðrir frægir kylfingar sem eiga afmæli í dag eru: Aðalsteinn Bergdal, 1. desember 1949 (62 ára);  Hildur Mikaels-dóttir, 1. desember 1957; Eiríkur Kristjánsson, 1. desember 1970 (41 árs); Hunter Haas, 1. desember 1976 (35 ára); Matt Haines, 1. desember 1989 (22 ára).

Ef þið viljið koma að afmælisgrein eða láta afmæliskylfings getið í upptalningu kylfinga, sem eiga afmæli hafið samband við golf1@golf1.is