Kvennasveit GKJ – Íslandsmeistarar í sveitakeppni kvenna 1998. F.v.: Nína Björk Geirsdóttir, Eva Ómarsdóttir, Afmæliskylfingurinn okkar Helga Rut Svanbergsdóttir, Snæfríður Magnúsdóttir, Katrín Dögg Hilmarsdóttir og Steinunn Björk Eggertsdóttir. Myndin er tekin 1998 og er í eigu Helgu Rutar.
Ragnheiður Jónsdóttir | desember. 29. 2011 | 12:00

Afmæliskylfingar dagsins: Arinbjörn Kúld, GA og Helga Rut Svanbergsdóttir, GKJ – 29. desember 2011

Helga Rut Svanbergsdóttir, GKJ og Arinbjörn Kúld, GA, eru afmæliskylfingar dagsins á Golf 1.

Arninbjörn fæddist 29. desember 1960 og er því 51 árs í dag. Hann er í Golfklúbbi Akureyrar og hefir tekið þátt í mörgum opnum mótum í sumar,  m.a. með eiginkonu sinni Önnu Einarsdóttur. (Sjá má viðtal Golf 1 við Önnu HÉR:) Meðal móta sem þau hjónin tóku þátt í,árið 2011 var: Hjóna-og paramót GA, Lostætis og Hótel Akureyrar, en þau lentu í 5. sæti af 77 pörum, sem þátt tóku og hlutu í verðlaun hótelgistingu.

Það má alveg koma fram hér að afmæliskylfingurinn okkar er með skemmtilegri golfspilafélögum, sem nokkur getur átt. Fyrir utan öll skemmtilegheitin er hann framúrskarandi herralegur og þægilegt að spila með honum, nokkuð sem aðrir mættu taka sér til fyrirmyndar.

F.v.: Hinrik, Afmæliskylfingurinn okkar Arinbjörn Kúld, Hjalti Arnarsson. Myndin er tekin í Herramóti GA, Heimsferða & RUB23 núna í ár 2011. Mynd: gagolf.is

Arinbjörn notar Mizuno kylfur og sagði eitt sinn að tilfinningin að spila með þeim væri eins mjúk og að skera smjör og áhuginn á kylfunum var slíkur að það smitaði út frá sér. Ekki að ástæðulausu að nr. 1 í heiminum Luke Donald og Arinbjörn nota Mizuno! Arinbjörn er sem fyrr segir kvæntur Önnu Einarsdóttur og þau eiga 3 börn: Pálu Björk Kúld f. 1987, Sunnu Lind Kúld f. 1991 og Tuma Hrafn Kúld f. 1997, en sá síðastnefndi hefir spilað á Arionbankamótaröð unglinga í sumar og er Akureyrarmeistari 2011 í holukeppni. Feðgarnir hafa oftar en 1 sinni spilað saman í Mitsubishi móti þeirra GA manna með góðum árangri.

 

Helga Rut Svanbergsdóttir

Helga Rut Svanbergsdóttir. Mynd: í eigu Helgu Rutar.

Hinn afmæliskylfingur dagsins er Helga Rut Svanbergsdóttir, GKJ. Hún fæddist 29. desember 1982 og er því 29 ára í dag.

Helga Rut byrjaði í golfi 10 ára gömul, þegar pabbi hennar sendi hana á golfnámskeið hjá GKJ. Þar kynntist hún vinkonum sínum og saman eru þær stöllur fyrir löngu orðnar landsþekktir kylfingar, en þar fremst í flokki að öðrum ólöstuðum er Nína Björk Geirsdóttir.

Saman urðu þær Íslandsmeistarar í sveitakeppni kvenna 1998 og 2001. Af mörgum afrekum Helgu Rutar á golfsviðinu er e.t.v. rétt að geta að hún varð Íslandsmeistari í flokki stúlkna 16-18 ára árið 1999 og 2000. Hún varð stigameistari stúlkna 16-18 ára 1999 og 2000. Helga Rut keppti með liði Skandínavíu gegn Bandaríkjunum í IZZO Cup árið 2000. Þá var hún í 3. sæti með íslenska stúlknaliðinu á Norðurlandamótinu árið 2000 og einnig í 2. sæti í einstaklingskeppninni í sama móti. Helga Rut varð Íslandsmeistari kvenna í holukeppni 2003 og er fyrsta konan til að ná í þann titil fyrir GKJ. Sama ár, 2003, varð Helga Rut klúbbmeistari GKJ (sjá mynd hér að neðan). Auk golfíþróttarinnar spilaði Helga Rut badminton með Aftureldingu í Mosfellsbæ.

Helga Rut ásamt Heiðari Davíð - klúbbmeistarar GKJ 2003. Mynd: mbl.is

Þess má loks geta hér að sú sem greinina skrifar kynntist Helgu Rut í golfveislu á Penina árið 2005 og var þá byrjandi í golfi. Helga Rut var stjarna og myndir af henni fylltu golftímarit á þeim tíma. En það var engum stjörnustælum fyrir að fara, Helga Rut var eitt sólskinsbros, hress, hvetjandi og íþróttamannsleg fram í fingurgóma – sannur fulltrúi golfíþróttarinnar, sem sómi er af.

Golf 1 óskar afmæliskylfingunum innilega til hamingju með afmælið!

Aðrir frægir kylfingar sem eiga afmæli í dag eru m.a.:  Curt Allen Byrum, 29. desember 1958 (53 ára); Bruce Bulina, 29. desember 1966 (45 ára); Drew Hartt, 29. desember 1966 (45 ára); Robert Dinwiddie, 29. desember 1982 (29 ára).

Ef þið viljið koma að afmælisgrein eða láta afmæliskylfings getið í upptalningu kylfinga, sem eiga afmæli hafið samband við golf1@golf1.is