Ragnheiður Jónsdóttir | september. 4. 2014 | 10:00

Af hverju lið Evrópu sigrar Ryderinn

Ewan Murray golffréttaritari The Guardian hefir tekið saman 5 ástæður fyrir af hverju lið Evrópu ætti að sigra í Rydernum.  Hér eru þær ástæður sem hann nefnir:

1. Lið Evrópu er einfaldlega betra

Paul McGinley státar af bestu kylfingum heims þ.á.m. Rory McIlory (nr. 1 á heimslistanum); Henrik Stenson (nr. 3 á heimslistanum); Sergio Garcia (nr. 4 á heimslistanum) og Justin Rose (nr. 5 á heimslistanum).  Það er ekki einn einasti bandarískur kylfingur sem er meðal efstu 5 á heimslistanum.   Hins vegar er heill hellingur af bandarískum kylfingum milli 5. 0g 12. sætisins sem Martin Kaymer er í, en Kaymer hefir spilað vel á árinu m.a. sigrað á The Players og Opna bandaríska, eins og mörgum er í fersku minni og á afar farsælan Ryder Cup feril og þ.a.l. einnig Ryder-reynslu.

2. Val fyrirliða á 3 leikmönnum 

Það sást bara á vali fyrirliðanna í lið sitt – það var virkilega erfitt val sem McGinley átti meðan fremur fyrirsjáanlegt væri hverja Watson veldi. Mahan hefir á bakinu að hafa brugðist í tvímenningi og hina skortir reynslu á við Westwood eða Poulter.

Sumir kynnu að telja að val McGinley á Stephen Gallacher væri tilefni til áhyggna en hann hefir þegar sýnt nú á árinu að hann stendur sig vel undir pressu, bæði í Dubai og á Ítalíu og síðan er hann á heimavelli.

3. Evrópa með sterkara teymi baksviðs

Murray telur Paul McGinley hafa komið mun betur fyrir en Tom Watson. Nefnir hann það að bandaríski fyrirliðinn hafi t.a.m. verið óljós hvað Tiger varðaði og reynt að skjóta sér undan spurningum hvort Tiger yrði í liðinu. McGinley hafi hins vegar verið einbeittur, hreinn og beinn og mótíveraður.

Eins sé Watson svolítið fjarlægur liði sínu, sem aðeins þekkir afrek hans af vídeó myndskeiðum og það sama megi eiginlega segja um varafyrirliða bandaríska liðsins, Andy North aog Ray Floyd.  McGinley þekkir hins vegar alla liðsmenn sína vel hefir annaðhvort leikið á móti þeim í mótum og verið með þeim í Ryder bikarskeppnum annaðhvort sem liðsfélagi eða aðstoðarfyrirliði. Aðstoðarfyrirliðar McGinley eru líka frábærir þ.e. José María Olazábal, Padraig Harrington og Miguel Ángel Jiménez, allt reynsluboltar.

4. Aðstæður á Gleneagles

Veðrið í Perthshire seint í september þar sem Ryder Cup fer fram verður að öllum líkindum kylfingunum erfitt; kuldi og rigning. Þetta er mikilvægur þáttur í allri keppninni.  Flestir bandarísku kylfinganna hafa enga reynslu af breskum skógarvöllum á þessum tíma árs – jafnvel þeir sem hafa skarað fram úr á linksvöllunum eins og Phil Mickelson og Rickie Fowler.

Veðrið og aðstæður á PGA Cenenary vellinum er liði Evrópu til framdráttar; þröngu brautirnar og hægari flatarnir heldur en t.a.m. í Medinah, sem lið Evrópu átti í byrjun erfitt með.

5. Golfsagan 

Jæja, það er e.t.v. yfir um einfeldingslegt að halda því fram að Ryder bikarinn verði áfram í Evrópu bara af því að liðinu hefir gengið vel í undanförnum mótum, en bandaríska liðið virðist bara vera í gír sem það virðist eiga erfitt með að skipta úr. Tapgírnum.

Frá árinu 1995 hefir bandaríska liðið bara staðið sig tvívegis í viðureignum gegn Evrópu. Margir í liði Bandaríkjanna bera enn örin eftir hræðilega frammistöðu gegn Evrópu og þ.á.m. eru  Mickelson, Mahan, Jim Furyk, Matt Kuchar og Zach Johnson. Það  er oftrú að ætla Jordan Spieth, Jimmy Walker og Rickie Fowler að koma á nýju sigurskeiði liðs Bandaríkjanna gegn liði Evrópu… að svo stöddu.  Því eins og sagði í upphafi – þá er lið Evrópu einfaldlega sterkara og golfsaga síðari ára sýnir að liðið er erfitt viðureignar á „heimavelli.“