Adam Scott
Ragnheiður Jónsdóttir | nóvember. 30. 2013 | 10:45

Adam Scott nálgast áströlsku þrennuna – hefir 4 högga forskot fyrir lokahring Australian Open

Adam Scott er einn í 1. sæti á Australian Open mótinu sem fram fer á golfvelli Sydney Golf Club í Ástralíu.

Hann er því farinn að nálgast það óðfluga að verða fyrsti kylfingurinn í lengri tíma til þess að ná „áströlsku þrennunni“ þ.e. sigra á öllum 3 stærstu mótunum í Ástralíu, en hann er þegar búinn að sigra á PGA Australia og Australia Masters mótunum.

Nú er bara að eiga frábæran lokahring á morgun á Australian Open og þá er þrennan hans!

Nr. 2 á heimslistanum, Adam Scott, er með 4 högga forskot á næsta mann, nr. 6 á heimslistanum Rory McIlroy, sem búinn er að eiga vægast sagt ömulegt ár.

Scott er búinn að spila á samtals 16 undir pari, 200 höggum (62 70 68). Rory er á 12 undir pari, 204 höggum (69 65 70).

Þriðja sætinu deila 3 heimamenn: Matthew Jones, Richard Green og Max McCardie, allir 8 höggum á eftir Scott og 4 á eftir Rory.

Spennandi að sjá hvort Scott nær þrennunni eða Rory dregur fram einhvern töfraás úr erminni á síðustu sekúndunni – aðrir virðast ekki líklegir til afreka.

Til þess að sjá stöðuna á Australian Open eftir 3. dag SMELLIÐ HÉR: