Ragnheiður Jónsdóttir | desember. 6. 2012 | 08:00

Adam Scott heldur tryggð við kústskaftið

Adam Scott  er ákveðinn að halda sig við kústskaftið sitt, þ.e. langan pútter. Hann gerði nokkrar tilraunir með styttri púttera á þriðjudaginn (4. desember s.l.) og í helming á Pro-Am móti Australian Open sem hófst í nótt á Lakes golfvellinum í Ástralíu.. Scott er ákveðinn að nota kústskaftið sitt vel inn í næsta ár.

„Ég pútta líklega með löngum pútter,“ sagði Scott um plön sín á Australian Open, „Ég hef varið tveimur síðustu árum í að læra að nota kústskaftið og það er það sem ég ætla að nota í þessari viku, að öllum líkindum“

Adam Scott að pútta með kústskaftinu

Scott sagði að hann hefði verið að gera tilraunir með styttri pútter „bara mér til skemmtunar“ í vikunni.

„Ég pantaði þennan pútter fyrir nokkru,“ sagði nr. 7 á heimslistanum. „Hann er bara aðeins lengri en stuttur pútter […]

„Þetta er ekki það sem ég vildi gera, hann er ekki alveg réttur fyrir mig. Þannig að ég verð að snúa mér að að honum seinna ef mér finnst þörf á.“

„Ég ætla að halda mig við kústskaftið ekki nema ég finni upp á betri leið til að pútta … ef það er til betri leið – Ég held að við leitum allir að bestu mögulegu leið og það eru enn betri leiðir fyrir mig til þess að nálgast (púttin).“

Scott er ekki skemmt yfir reglubreytingum,  sem fyrirhugaðar eru 2016 og banna langa púttera.

„Stjórnvöld hafa sagt að breytingarnar séu fyrirhugaðar, en þeir (löngu pútterarnir) hafa verið til staðar s.l. 30 ár,“ sagði Scott. „Ég meina, allt í einu snýst þeim hugur af einhverri ástæðu. Þeim líkar ekki að sjá krakka með magapúttera segja þeir.“

„Ég hef engar áhyggjur. Allir hafa sína skoðun á leiknum. Mitt álit á þessu öllu, í heildina tekið er að ef þeir ætla að taka ákvarðanir eins og þessar þá verða þeir að vera sjálfum sér samkvæmir í þessari heimspeki sinni og taka allt golfið í gegn. Þá á ég ekki í neinum vandræðum með þetta. Ég held að þetta hafi verið stór ákvörðun og aðeins tíminn mun leiða í ljós hvort hún var rétt fyrir leikinn eða ekki.“

Á Pro-Am mótinu fyrir Australian Open notaði Scott styttri pútter fyrstu 9 holurnar en hætti síðan að nota hann og notaði þess í stað langan pútter á seinni 9 og varði þó nokkrum tíma á flötunum þegar hann púttaði.

Uppáhald allra í mótinu (Adam Scott) virtist eiga í vandræðum utan flatanna – hann setti t.a.m. 3 bolta í vatnið á par-5 11. brautinni og vindurinn gerði öllum lífið leitt, hvort sem var áhuga- eða atvinnumönnunum.

Scott er í ágætis formi fyrir Australian Open en margir velta samt fyrir sér hvort klúðrið frá Opna breska þegar hann tapaði niður 4 högga forystu og tækifæri til að vinna fyrsta risamótið sitt, sitji enn í honum.

Adam Scott vísaði til Tom Watson, sem sagði m.a. að „hatrið“ og „reiðin“ sem hann hefði fundið fyrir eftir hann lét sér sigurinn sér úr greipum renna á US Open risamótinu, 1974, hefði verið hvatinn að því að hann vann 8 risamót.

Um það sagði Scott: „Leið allra að fyrsta sigrinum á risamóti er öðruvísi. Tiger kom og vann strax. Aðrir sigruðu um leið og þeir fengu tækifæri enn aðrir eins og Phil Mickelson urðu að knýja dyra nokkrum sinnum en sigruðu að lokum. Tom Watson lét sér eitt mót úr greipum renna og vann síðan 8 sinnum þegar hann fékk tækifæri til. Ég hlakka bara til að komast aftur í aðstöðu til að vinna risamót eins fljótt og ég get. Vonandi í apríl [á US Masters].“

Heimild: Stuff.co.nz