Ragnheiður Jónsdóttir | ágúst. 21. 2012 | 12:30

Að konur fái að gerast meðlimir í Augusta National er m.a. sigur Mörthu Burk!!!

Martha Burk fæddist 18. október 1941 og verður því 70 ára í haust.  Betri afmælisgjöf en að konur fái aðild að Augusta National er varla hægt að hugsa sér til handa Burk.

En hver í ósköpunum er  Martha Burk kunna einhverjir að spyrja?

Martha er bandarískur sálfræðingur, femínisti og fyrrum formaður heildarsamtaka kvenréttindafélaga í Bandaríkjunum (ens: the National Council of Women’s Organizations).

Hún er þekktust fyrir að hafa staðið í stríði við fyrrum framkvæmdastjóra Augusta National Golf Club, William „Hootie“ Johnson um hvort leyfa ætti konum að gerast meðlimir í Augusta National.

Burk hélt því fram að það að halda the Masters mótið í klúbb þar sem eingöngu karlar gætu gerst meðlimir væri kynjamisrétti. Einkum væri misréttið sárt í ljósi þess að 15% karlanna í klúbbnum eru forstjórar og framkvæmdastjórar, sem tilheyra Fortune 500, þ.e. 500 ríkustu mönnum heims. Konur hljóta engin tækifæri að umgangast þá sem jafningja, þ.e. konur sem tilheyra þessum Fortune500 lokaða klúbbi – en oft eru samningar og stærstu ákvarðanirnar sem snerta heimsbyggðina alla teknar á golfhring í Augusta.  Er þetta heimurinn sem við viljum lifa í?

Johson sagði framgöngu Burk „frekjulegt brot og þvingandi“ þar sem hún væri í ljósi kynjaréttar og mannréttinda að gera tortryggileg lögvarin félagaréttindi klúbbsins þ.á.m. til ákvörðunar hverjir væru í honum. Johnson hélt því fram að Augusta væri eins og hver annar einkaklúbbur sem hefði rétt til að ákveða hverjir væru félagsmenn.

„Félagar okkar eru aðeins af einu kyni líkt og í mörgum stofnunum og klúbbum um öll Bandaríkin. Til þeirra teljast m.a. unglingadeildir í golfi – en þar er hefðbundin skipting í stelpu og strákaflokka svo dæmi sé tekið, bræðra og systrafélög (ens.: fraternities og sororities) við háskóla, og kynjaskipting í skátunum. Við höfum öll siðferðilegan og lagalegan rétt til að skipuleggja klúbba okkar eins og okkur sýnist.“

Burk (sem einnig var nefnd Hootie í æsku) var uppnefnd öllum hefðbundnum skammaryrðum kvenréttindakvenna í kjölfarið – hún var sögð karlahatari, vera á móti fjölskyldunni, lesbía o.s.frv.)

Á móti kom að Johnson var sagður líkjast Senator Claghorn – tegund karlmanns sem ver allt sem kemur frá Suðurríkjum Bandaríkjanna.

(Það er athyglivert að báðar konurnar, sem fyrstar hljóta inngöngu í Augusta National eru frá Suðurríkjum Bandaríkjanna, Darla Moore frá Suður-Karólínu og Condoleezza Rice frá Alabama – hin frjálslyndari Ginni Romety forstjóri IBM, frá Norðurríkjunum, sem þó vakti athygli á málinu hefir enn ekki hlotið náð fyrir augum forsvarsmanna Augusta.)

Johnson (fyrrum framkvæmdastjóri Augusta National) sagði eitt sinn um þennan punkt að Augusta National myndi einn góðan veðurdag heimila konum að gerast meðlimir „en bara ekki með byssusting miðaðan á sig.“  (Týpískt Suðurríkja comment og afstaða).

Ginni þykir e.t.v. hafa veifað „byssustingnum“ of „frekjulega“ til þess að hljóta inngöngu svona fyrst um sinn. Það var jú hún sem athygli vakti á málinu, með stöðu sinni einni saman og kom öllu í uppnám á s.l. Masters móti. Sannast þar það sem Davíð Stefánsson sagði á einum stað í fallega kvæðinu um konuna sem kyndir ofninn minn: „…. fáir njóta eldanna sem fyrstir kveikja þá.“

Í kjölfar deilu Burk og Johnson sögðu tveir klúbbmeðlimir sig úr klúbbnum Thomas H. Wyman, fyrrum forstjóri CBS og John Snow, þegar George W. Bush gerði hann að fjármálaráðherra (en Condoleezza Rice var einmitt 66. utanríkisráðherra Bandaríkjanna í stjórn hans). Vegna þrýstings frá styrktaraðilum var sýnt frá the Masters án nokkurra auglýsinga, árin 2003 og 2004. En Augusta klúbburinn er ekki kominn upp á auglýsingatekjur, það var fremur að ímyndin væri að bíða hnekki, en það ásamt öðru er talin ástæða fyrir hugarfarsbreytingunni nú.

Eitt þessara atriða  er m.a. að nú þegar golf er orðin ólympíugrein geti forvígismenn Augusta National ekki verið í þeirri forystu sem þeir vilja vera í fyrir golfíþróttina, þar sem tekið var til sérstakrar athugunar þegar golf var samþykkt sem keppnisgrein á leikunum hvort komið væri til móts við kröfur leikanna um að golf væri „íþrótt sem stunduð væri án mismununar, í anda vináttu, heilinda og sanngjarns leiks.“

Golf hlaut að lokum eftir margra ára„ óskiljanlegt“ strögl náð fyrir augum Ólympíunefndarinnar og Augusta bara talin vera risaeðla síns tíma – ímynd sem Augusta vill að sjálfsögðu ekki hafa.

Afstaða Burk til málsins er ljós. „Ó Guð minn, við unnum,“ sagði hún m.a. í viðtali við ESPN, eftir að hafa staðið fyrir fjölda mótmælastöðum og fjöldagöngum m.a. við Augusta National, sú mest minnisstæðasta e.t.v. 2003.

„Þetta er sigur ekki fyrir mig persónulega, heldur kvennahreyfinguna…. jamm við unnum!,“ sagði Burk í framangreindu útvarpsviðtali við ESPN, í gær.

Heimild: Wikipedia og ESPN