Ragnheiður Jónsdóttir | júlí. 31. 2014 | 19:44

Eimskipsmótaröðin 2014 (5): Viðtal við Íslandsmeistarann í höggleik 2014 —————- Birgi Leif Hafþórsson

Hér á eftir fer viðtal við Íslandsmeistarann í höggleik 2014, Birgi Leif Hafþórsson, GKG.

Þetta er í 6. skiptið sem Birgir Leifur verður Íslandsmeistari og er hann þar með búinn að jafna við þá Úlfar Jónsson, landsliðsþjálfara og Björgvin Þorsteinsson, GA, en þessir 3 hafa oftast orðið Íslandsmeistarar í höggleik, 6 skipti hver.  Hér fer viðtalið:

Birgir Leifur Hafþórsson, GKG. Mynd: Golf 1

Birgir Leifur Hafþórsson, GKG á 1. teig lokahringinn 28. júlí 2014. Mynd: Golf 1

1.  Af Íslandsmeistaratitlunum 6 sem þú hefir unnið í höggleik, hvaða sigur er eftirminnilegastur og af hverju?

Birgir Leifur: Sá  fyrsti vegna þess að hann var í Vestmannaeyjum og er ég hálfur Eyjapeyji því öll móðirættin mín er frá Eyjum. Sjötti vegna þessa að hann var á heimavelli mínum GKG og jöfnun á meti.

2.  Í þessu Íslandsmóti varstu með afgerandi forystu alla mótsdagana og sigraðir síðan með skor upp á 10 undir pari og áttir 7 högg á næsta keppanda – Varstu nokkurn tímann hræddur um að þú myndir ekki sigra? – Var nokkur að veita þér keppni?

Birgir Leifur: Maður þarf alltaf að vera vel einbeittur því höggin eru fljót að fjúka ef maður missir einbeitinguna. Þannig að það var það fyrst og fremst sem skóp þennan sigur  hvað ég var einbeittur og hafði mikið vald á sjálfum mér.

Birgir Leifur Hafþórsson, GKG, var efstur eftir 2. dag á Íslandsmótinu í höggleik á glæsilegum 8 undir pari!!! Mynd: Golf 1

Birgir Leifur Hafþórsson, GKG, var efstur eftir 2. dag á Íslandsmótinu í höggleik á glæsilegum 8 undir pari!!! Mynd: Golf 1

3. Þú varst með glæsiskor undir 70 höggum, alla 3 fyrstu mótsdagana, en síðan spilar þú á 2 yfir pari , 73 höggum lokadaginn. Hvað gerðist? Verður þú nokkru sinni stressaður úti á golfvelli?

Birgir Leifur: Þetta er skrítinn leikur og völlurinn er fljótur að refsa ef maður er ekki með allar ákvarðanir á tæru, það sem gerðist síðasta daginn er að ég byrjaði verr en hina dagana fyrstu 6 holurnar án þess þó að slá léleg golfhögg, en misreiknaði vindinn. Það setti mig svolítið undir pressu sem mér fannst ég leysa samt mjög vel. Það verða allir stressaðir en aðalmálið er að stressið stjórni manni ekki heldur að þú stjórnir stressinu 😉

4  Af hverju ertu stoltastur í nýliðnu Íslandsmóti (þ.e. fyrir utan að verða Íslandsmeistari – spurt um afrek úti á golfvelli – var það örninn á 14. á fyrsta mótsdegi – það að þú fékkst 3 fugla á 12. og 15. braut í þessu Íslandsmóti, e-hv annað) ?

Birgir Leifur: Ég er stoltastur af félagi mínu GKG hvernig þeir héldu utan um mótið og gerði það að svona flottum viðburði eins og raun bar vitni, einnig öllum sjálfboðaliðunum sem gáfu tíma sinn fyrir okkur keppendur það er ómetanlegt og ég dáist af svona fólki sem gefur frá sér tíma fyrir aðra. Ég er hrikalega stoltur af því að vera í GKG.

Birgir Leifur er stoltastur af fjölskyldu sinni!

Birgir Leifur er stoltastur af fjölskyldu sinni! Mynd: Í einkaeigu

5.  Af hverju ertu stoltastur af því sem liðið er af golfsumrinu?

Birgir Leifur: Fjölskyldu minni allri og Íslandsmeistaratitli sonar míns Inga Rúnari á Hellu, þar sem ég var kylfusveinn hjá honum.

Birgir Leifur er stoltur af syni sínum Inga Rúnari, sem varð Íslandsmeistari í höggleik í strákaflokki á Íslandsmótinu í höggleik á Hellu. Mynd: Í einkaeigu

Birgir Leifur er stoltur af syni sínum Inga Rúnari, sem varð Íslandsmeistari í höggleik í strákaflokki á Íslandsmótinu í höggleik á Hellu og hann var kylfusveinn hjá.  Þess mætti geta að Ingi Rúnar var kylfusveinn föður síns í bæði skiptin undanfarin tvö ár þegar hann varð Íslandsmeistari í höggleik á Eimskipsmótaröðinni 2013 og 2014. Mynd: Í einkaeigu

6.  Trufla áhorfendur, ljósmyndarar, sjálfboðaliðar o.s.frv. þig í stórmóti sem Íslandsmótinu í höggleik? Eru íslenskir áhorfendur öðruvísi en þú þekkir í mótum erlendis?

Birgir Leifur: Nei þeir trufla mig ekki neitt ef eitthvað þá gerir þessi umgjörð mig einbeittari á það verkefni sem ég er með fyrir höndum. Íslenskir áhorfendur eru bestu áhorfendur í heimi !!!

Þórður Rafn Gissurarson, Axel Bóasson, Guðrún Brá Björgvinsdóttir, Birgir Leifur Hafþórsson, og Ólafía Þórunn Kristinsdóttir sátu fyrir svörum á spjallfundi í dag, 26. júlí 2014. Mynd: Golf 1

Þórður Rafn Gissurarson, Axel Bóasson, Guðrún Brá Björgvinsdóttir, Birgir Leifur Hafþórsson, og Ólafía Þórunn Kristinsdóttir sátu fyrir svörum á spjallfundi í dag, 26. júlí 2014. Mynd: Golf 1

7.  Hvað finnst þér um nýjung GSÍ að vera með spjallfundi við ykkur kylfinganna strax eftir spilaða hringi ykkar – Situr ekki að ykkur, ef þið komist ekki í sturtu eftir hring? (Mér fannst ykkur vera hrollkalt og sárvorkenndi ykkur að sitja fyrir svörum)

Birgir Leifur: Þetta var í raun nýjung, sem Agnar framkvæmdastjóri GKG kom með og fannst mér hún bráðskemmtileg og það varð til tenging milli keppenda og áhorfanda sem ekki hefur verið áður. Einnig sátu keppendur og áhorfendur aðeins lengur eftir daginn og spjölluðu og það er eitthvað sem hefur vantað áður. Allavega var mér ekkert kalt og fannst þetta bara virkilega gaman.

8. Hver er uppáhaldsholan þín á Leirdalsvelli?

Birgir Leifur: Vá, mér finnst 1. holan besta upphafshola á íslenskum golfvelli.

12. og 16. Ein af öflugustu par 5 holum landsins.

11. holan er flottasta par þrjú holan, stutt en getur verið hrikalega erfið.

9.  Hvað tekur við það sem eftir er árs hjá þér?

Birgir Lefiur: Ég keppi í sveitakeppni fyrir GKG í næstu viku og svo tekur við undirbúningur fyrir Q-school fyrir evrópsku mótaröðina, sem hefst í september.