Ragnheiður Jónsdóttir | júlí. 23. 2014 | 09:00

Sergio Garcia: „Ég gerði allt sem ég gat til að ná Rory“

Sergio Garcia var í heimspekilegu stuði á sunnudag eftir að hafa orðið í 2. sæti á Opna breska ásamt Rickie Fowler.

Þetta er í 4. skiptið sem hann landar 2. sætinu í risamóti á ferlinum, en Garcia á enn eftir að sigra í risamóti.

Garcia lék á glæsilegum 6 undir pari 66 höggum og var samtals á 15 undir pari, 273 höggum, en þeir báðir, Rickie og hann voru engu að síður 2 höggum á eftir Rory.

„Mér fannst ég spila vel. Mér fannst ég gera allt sem ég gat og það var samt betri leikmaður hér (í mótinu). Svo einfalt er það.“

„Ég reyni að líta á það jákvæða og það er alltaf meira af jákvæðu en neikvæðu. Það er þannig, sem ég vil taka því,“ sagði Garcia sem var líka í 2. sæti á Opna breska 2007 og á PGA Championship 1999 og 2008.

Garcia var heilum 7 höggum á eftir Rory fyrir lokahringinn og það reyndist í lokin of mikið bil þannig að hægt væri að ná því upp.

„Ég held að Rickie og ég höfum reynt að setja eins mikla pressu á hann og við gátum,“ sagði Garcia.  „Augljóslega er það ekki auðvelt verk þegar maður veit að maður getur ekki gert nein mistök.“

„Það eru svo mörg atriði sem verða að fara vel til þess að hægt sé að komast nærri honum …. ég varð að vera a.m.k. á 8 undir pari.“

Það var því heldur dýrkeypt þegar Garcia náði ekki boltanum upp úr flatarglompu á 15. braut.

„Augljóslega var 15nda mistök“ sagði Garcia. „Í hvert sinn sem ég komst nálægt náði hann (Rory) fugli og leyfði mér ekki að komast nær en þetta.

„Allt í allt fannst mér þetta vera frábær vika.“

Garcia sýndi tilfinningar sínar (eins og svo oft áður) þegar hann gekk af lokaflötinni, sendi áhangendunum fingurkossa og barði sér á hjartastað til að sýna hversu mjög honum þætti vænt um þá (áhangendurna).

„Ég elska 18ndu. Það er tilfinning sem enginn getur tekið frá mér og er ein af ástæðunum fyrir að ég elska þetta meistaramót,“ sagði Garcia loks.