Ragnheiður Jónsdóttir | júlí. 16. 2014 | 19:00

Arnór Snær og Ólöf María standa sig vel!

Arnór Snær Guðmundsson og Ólöf María Einarsdóttir Golfklúbbnum Hamri Dalvík taka nú þátt í Junior Open á West Lancashire golfvellinum, en mótið er haldið á vegum R&A í sömu viku og The Open.

West Lancashire er rétt norðan við Royal Liverpool eða Hoylake eins og völlurinn er oftast nefndur. West Lancashire er ekki ósvipaður Hoylake og hefur völlurinn oft verið vettvangur úrtökumóta fyrir The Open og eins hefur Amateur Championship verið haldið á vellinum, en Matteo Mannasero vann einmitt Amateur Championship 2009 og á vallarmetið á vellinum, 65 högg.

Arnór Snær bætti sig um 3 högg, lék í fyrsta sinn undir 80 í mótinu í dag, var á 78 höggum!

Samtals lék Arnór Snær  á 24 yfir pari, 240 höggum (81 81 78) og varð í 38. sæti, sem hann deildi með 3 öðrum keppendum.

Ólöf María lék á samtals 41 yfir pari, 257 höggum (81 87 89) og hafnaði  í 76. sæti, einnig ásamt 3 öðrum.

Þetta er frábær árangur hjá Arnóri og Ólöfu, en West Lancashire völlurinn er ekki sá auðveldasti í forveginn og alls ekki fyrir kylfinga sem eru að spila þar í fyrsta sinn auk þess, sem hann snarbreytist í hvössu rigningarveðri eins og var í dag, þó fremur hlýtt (23°) og rakt hafi verið.

Til þess að sjá lokastöðuna á The Junior Open SMELLIÐ HÉR: