Ragnheiður Jónsdóttir | júlí. 12. 2014 | 16:00

Afmæliskylfingur dagsins: Inbee Park ——— 12. júlí 2014 – efst á Opna breska f. lokahringinn

Afmæliskylfingur dagsins er Inbee Park  (kóreanska: 박인비, Hanja:  朴仁妃) Hún er fædd 12. júlí 1988 og á því 26 ára afmæli í dag. Park hélt upp á afmælisdag sinn með því að ná 1. sætinu á Ricoh Opna breska kvenrisamótinu fyrir lokadag mótsins. Hún er samtals búin að spila á 4 undir pari, 212 höggum og er með þær Shanshan Feng og Suzann Pettersen á hælunum, sem báðar eru á samtals 3 undir pari. Sjá má stöðuna á mótinu með því að SMELLA HÉR: 

Inbee sigraði á 3  af 5 risamótum ársins 2013 og átti möguleika á „Grand Slam“ í kvennagolfinu og var fyrir ári fylgst með henni af spennu, en þá fór allt handaskolum hjá henni.  Kannski henni takist að hefna ófaranna í fyrra á morgun!

Stundum er snúið úr úr nafni hennar á enskri tungu og sagt að Inbee sé „Inbee-lievable“  þ.e. ótrúleg og það má alveg taka undir það!

Þrátt fyrir ungan aldur hefir hún sigrað á 17 mótum á atvinnumannsferli sínum en Inbee gerðist atvinnumaður í golfi fyrir 8 árum, þ.e. 2006.  Þar af hefir hún sigrað í 10 mótum á LPGA og í 4 mótum á japanska LPGA, þar af í 4 risamótum kvennagolfsins.  Til samanburðar má geta þess að Annika Sörenstam sigraði í 10 risamótum kvennagolfsins og hefir Inbee 14 ár til að slá við því risamótameti Anniku, sé miðað við að hún hætti í golfi um fertugsaldurinn líkt og Annika gerði.

Inbee er sem stendur nr. 3 á Rolex-heimslista kvenna.

Aðrir frægir kylfingar sem eiga afmæli í dag eru:  Paul Runyan, f. 12. júlí 1908- d. 17. mars 2002;  Robert Allenby 12. júlí 1971 (43 ára); Alexander Norén, 12. júlí 1982 (32 ára);  Sophie Giquel-Bettan, 12. júlí 1982 (32 ára); Isabella Ramsay (sænsk) 12. júlí 1987 (27 ára) …… og …….

Golf 1 óskar afmæliskylfingunum og öðrum kylfingum sem afmæli eiga í dag innilega til hamingju með afmælið!Ef þið viljið koma að afmælisgrein eða láta afmæliskylfings getið í upptalningu kylfinga, sem eiga afmæli hafið samband við golf1@golf1.is