Haraldur Franklín. Mynd: Golf 1
Ragnheiður Jónsdóttir | júní. 23. 2014 | 19:00

Hvað er heitt og hvað afleitt?

Nú í sumar verður nýr greinarflokkur hér á  Golf 1 sem ber heitið „Hvað er heitt og hvað afleitt?“, sem er í raun bein þýðing og stæling á sambærilegum greinaflokki hjá CBSsports.com, sem heitir þar „What´s hot and what not … on the PGA tour.“

Á CBS er alltaf getið um 5 atriði (kylfinga, atburði, eitthvað innan golfheimsins), sem þykja hafa skarað fram úr í vikunni áður en greinin birtist og er þ.a.l. heitt og að sama skapi eitthvað sem var afleitt í vikunni þar á undan.

Í hinum íslenska greinaflokki er ekkert loforð gefið um fjölda þess sem er heitt eða afleitt að öðru leyti en því að alltaf er a.m.k. nefnt 1 atriði af hvoru og í mesta lagi 5 eins og á CBS.   Haldið er sömu röð og hjá CBS – það sem er nr. 1 er heitast og síðan volgnar niður listann.  Alveg eins með það sem er afleitt – það sem er frámunalega afleitt er í 1. sæti og síðan skánar eftir því sem fer niður listann.

Heitt/afleitt grein kemur nú í sumar alltaf til með að birtast á mánudögum, með undantekningum vegna frídaga, en þetta er í raun aðeins 2. greinin sem birtist á mánudegi 🙂

Hér fer fjórði alíslenski „Hot“ listinn fyrir vikuhlutann 19.-23 júní (Listinn gildir til mánudagsins 30. júní).  Skyldi vera erfitt að búa til svona „hot“ lista þegar aðeins er úr 5 dögum að moða? ALLS EKKI!!! Það er einfaldleg svo mikið um að vera núna og í raun erfiðara að setja listann saman vegna þess að svo mikið er um að vera.

1. Haraldur Franklín Magnús, GR. Ástæðan fyrir því að Haraldur er í efsta sæti „Hot-listans“ er einföld: frábær árangur hans á Opna breska áhugamannamótinu!!! Hann var sá eini af íslensku þátttakendunum 4 sem tókst að spila sig í gegnum höggleikshlutann og verða meðal 64, af 288 þátttakendum,  sem komust áfram í holukeppnishluta þessa móts, sem er eitt sterkasta áhugamannamót heims. Þetta er 2. árið í röð sem Haraldi Franklín tekst að komast áfram í holukeppnishlutann.  Í holukeppninni byrjaði Haraldur á að koma sér í 32 manna úrslit með því að sigra Danann Nicolai Tinning, sannfærandi 4&3. Síðan bar hann sigurorð af Jordan Smith núverandi enskum meistara í höggleik áhugamanna og spilaði sig þar með í 16 manna úrslit.  Þar vann Haraldur Franklín  sigur á John Kinnear 2&1 og kominn í fjórðungsúrslit; orðinn einn af 8 sem átti möguleika á að spila á Opna breska, Opna bandaríska og hljóta boð á Masters mótið. Stórglæsilegt þó ekki hafi draumurinn orðið að veruleika að þessu sinni!  Og það má kannski geta þess að sá sem Haraldur Franklín tapaði fyrir í fjórðungsúrslitunum , Skotinn Neil Bradley, varð síðan sigurvegari Opna breska áhugamannamótsins í ár. En burt séð frá Opna breska áhugamannamótinu og því hversu stoltur maður er alltaf af velgengni Haralds Franklíns í mótum erlendis fyrir Íslands hönd hefir Haraldur Franklín staðið sig ótrúlega vel í bandaríska háskólagolfinu og nægir þar að nefna að hann sigraði glæsilega í einstaklingskeppni Memphis Intercollegiate mótsins!  Ekki spurning…… Haraldur Franklín er langheitastur!!!

2.  Íslandsmeistarar í holukeppni í stúlkna; telpna og í stelpuflokki 2014; Ragnhildur Kristinsdóttir, GR; Ólöf María Einarsdóttir, GHD og Kinga Korpak, GS. Glæsilegar allar þrjár og ekki hægt að gera upp á milli þeirra!!!  Ragnhildur var að vinna 2. mót sitt á Íslandsbankamótaröðinni í ár og spilar auk þess á Eimskipsmótaröðinni!  Þetta er langt frá því 1. Íslandsmeistaratitill hennar, en Ragnhildur varð m.a. Íslandsmeistari í höggleik stelpna 2012.  Ólöf María varð Íslandsmeistari bæði í höggleik og holukeppni í stelpuflokki 2013 og er síðan Íslandsmeistari í ár í telpuflokki.  Svo fór hún holu í höggi á 8. holu Urriðavallar í gær – Glæsileg!!!!  Kinga var að vinna fyrsta Íslandsmeistaratitil sinn en hún var býsna nálægt því í fyrra að vinna fyrsta titilinn á heimavelli sínum, en laut þar lægra haldi gegn Ólöfu Maríu.  Það er ótrúlegt og í raun sjóðandi heitt að Kinga skuli vera orðinn Íslandsmeistari í holukeppni í flokki 14 ára og yngri aðeins 10 ára!!!       Ef fram heldur sem horfir getur Kinga unnið þennan titil næstu 4 ár!!!  Svo er Kinga líka búin að sigra í öllum 3 mótum í stelpuflokki á Íslandsbankamótaröðinni sem af er – enginn kylfingur í öllum aldursflokkum er með fullt hús sigra á Íslandsbankamótaröðinni í ár, eins og Kinga!!!

3.   Íslandsmeistarar í holukeppni pilta; drengja og stráka 2014.  Þetta eru þeir Tumi Hrafn Kúld, GA;  Fannar Ingi Steingrímsson, GHG og Sigurður Arnar Garðarsson, GKG og eru þeir allir að vinna fyrstu Íslandsmeistaratitla sína í holukeppni á Íslandsbankamótaröðinni, sem bæði er stórglæsilegt og heitt!!! 

4. Kristófer Tjörvi Einarsson, GV. Hann sigraði í flokki 14 ára og yngri stráka, sem var fjölmennasti flokkurinn á 3. móti Áskorendamótaraðarinnar á Víkurvelli í Stykkishólmi.  Kristófer Tjörvi var á glæsilegum 4 yfir pari, 76 höggum. Jafnframt var Kristófer Tjörvi var á besta skorinu yfir allt mótið!

5. Foreldrar og aðrir keppendur á 3. móti Áskorendamótaraðarinnar á Víkurvelli í Stykkishólmi, þ.á.m. „heimamenn“ í Golfklúbbnum Mostra, sem voru að stíga sín fyrstu spor á mótaröðinni, sem og stelpurnar 3: Nína og Ásdís í GR og Thelma í GK,  sem héldu uppi heiðri kvenkylfinga í mótinu!

Það sem er afleitt er eftirfarandi: (Listinn gildir til mánudagsins 30. júní):

1) Það vantaði keppendur í 3 flokka á 3. móti Áskorendamótaraðarinnar. Það vantaði keppendur í flokk pilta, flokk stúlkna og flokk telpna á 3. móti Áskorendamótaraðarinnar sem fram fór á Víkurvelli í Stykkishólmi.  Mótið var frábært í alla staði og afleitt að kylfingar sem falla í framangreinda flokka skuli hafa misst af því. Arfa-Afleitt!!!  Afleitt að kylfingar 15-18 ára séu að missa af að spila á jafnfrábærri mótaröð.  Þetta skýrist að nokkru af því að nokkrir sem að komust ákváðu að spila í Íslandsmótinu í holukeppni, en það mættu svo sannarlega vera fleiri keppendur í öllum flokkum Áskorendamótaraðarinnar!

2) Engin umfjöllun í öðrum golffréttamiðlum um 3. mót Áskorendamótaraðinnar en á Golf1.  Áskorendamótaröðin er nú einu sinni GSÍ mótaröð og manni finnst að ein lítil frétt a.m.k. hefði mátt birtast á vef GSÍ, sem öðrum fréttamiðlum hérlendis.  Á hátiðisstundum er kvartað yfir dræmri þátttöku stúlkna/kvenna í golfinu …. það er ekki nema von að svo sé ef ekkert er gert til að laða þær að mótaröðinni og FJALLA SÍÐAN UM HANA!!! –

3) Að það geti ekki verið Jónsmessa alla daga…. með sól og lengsta degi ársins og fullt af skemmtilegum golfmótum!!!!! 🙂