Fannar Ingi í Kaliforníu
Ragnheiður Jónsdóttir | maí. 31. 2014 | 18:00

Eimskipsmótaröðin 2014 (2): Fannar Ingi frábær! – Á besta skori á 2. degi á Hellu

Fannar Ingi Steingrímsson GHG lék hreint frábært golf á Hellu í dag.

Þó nokkrir eigi eftir að ljúka hringjum sínum, 2 holur, þá er ljóst að Fannar Ingi er á besta skori dagsins 4 undir pari, 66 höggum!!!  Hann var reyndar sá eini ásamt forystumanninum Arnóri Inga Finnbjörnssyni GR og GK-ingnum Henning Darra Þórðarsyni til þess að spila undir pari í dag.

Fannar Ingi fékk glæsiörn á 10. braut og síðan 3 fugla og 1 skolla.

Fannar Ingi er þekktur fyrir að eiga frábæra lokaspretti og er skemmst að minnast glæsiframmistöðu Fannars Inga á Íslandsbankamótaröðinni fyrir næstum nákvæmlega ári síðan, þ.e. 2. júní 2013, en þá lauk hann keppni á hreint ótrúlega, stórglæsilegu skori upp á 9 undir pari, 61 höggi!!! Á hringnum þá fékk Fannar Ingi hvorki fleiri né færri en 8 fugla og 1 skolla.

Það verður spennandi að fylgjast með Fannari Inga á morgun!