Ragnheiður Jónsdóttir | maí. 23. 2014 | 08:00

Evróputúrinn: Sergio dregur sig úr BMW PGA Championship með hnémeiðsl

Nr. 7 á heimslistanum, Sergio Garcia dró sig úr BMW PGA Championship á Wentworth stuttu eftir að hann lauk við 1. hring í gær á þessu flaggskipsmóti Evrópumótaraðarinnar.

Hinn 34 ára Spánverji (Garcia), sem lék á 1 yfir pari, 73 höggum hefir verið hrjáður af hnjámeiðslum og vonast til að hann nái að jafna sig fyrir risamót næsta mánaðar, US Open í Pinehurst.

Á fyrsta deginum á Vesturvelli Wentworth var Garcia með 15 pör, 2 skolla og aðeins 1 fugl á 18. flöt.

Garcia sagði að loknum hringnum: „Því miður er þetta það sama og gerðist á the Spanish Open.“

„Það (hnéð) var betra, vegna hvíldar á mánudeginum og þriðjudeginum, en eftir að hafa gengið völlinn, upp og niður hæðirnar þá eru aftur komnar sársaukastungur í það.“

„Þar sem Opna bandaríska er á næsta leyti vil ég ekki að hún versni. Ég mun fara í læknisskoðun á Spáni og sjá hvað þeir segja.“

„Ég er viss um að ég verð að vera á bólgueyðandi. Ég verð líklega að vinna aðeins í því (hnénu) en veit ekki nákvæmlega hvernig.“

„Ég fór í röntgen á mánudagsmorgninum. Þeir skoðuðu hnéð og þeir sögðu að þetta væri smá bjúgur við hnéskelina.“

„Ég var að vonast að mér myndi líða vel þessa viku En eins og mér leið á síðustu 4 holunum – mér leið bara alls ekki vel.“

Vonandi að Garcia verði orðinn góður fyrir Opna bandaríska!