Ragnheiður Jónsdóttir | maí. 22. 2014 | 14:15

Eimskipsmótaröðin 2014: Fyrsta mótið fer fram í Leirunni – Mótaskrá

Nú rétt í þessu lauk blaðamannafundi GSÍ, þar sem kynnt voru helstu verkefni Golfsumarsins 2014.

Úlfar, landsliðsþjálfari; Haukur Örn, forseti GSÍ og Hörður, framkvæmdastjóri GSÍ fara yfir Golfsumarið 2014, á blaðamannafundi 22. maí 2014. Mynd: Golf 1

Úlfar Jónsson, landsliðsþjálfari; Haukur Örn Birgisson, forseti GSÍ og Hörður Þorsteinsson, framkvæmdastjóri GSÍ fara yfir Golfsumarið 2014, á blaðamannafundi 22. maí. Mynd: Golf 1

Sem fyrr styrkir Eimskip mótaröð bestu kylfinga landsins og ber mótaröðin nafn 100 ára afmælisbarnsins, en „Óskabarn þjóðarinnar“ var stofnað fyrir 100 árum síðan, 17. janúar 1914.

Mótaröð bestu kylfinga á Íslandi, Eimskipsmótaröðin hefst n.k. laugardag 24. maí á Hólmsvelli í Leiru. Öll mótin á Eimskipsmótaröðinni eru að lágmarki 54 holur á þessu fyrsta móti verða leiknar 36 holur á laugardegi og síðan 18 holur á sunnudegi. Góðs skráning er í þetta fyrsta mót ársins og flestir sterkustu kylfingar landsins eru með.

Sem stendur eru 84 skráðir; 66 karl- og 18 kvenkylfingar.

Í ár verða 7 mót á Eimskipsmótaröðinni og er það einu móti fleira en á síðasta ári.  Verður fróðlegt að fygjast með hvernig okkar bestu kylfingar, sem margir hverjir hafa æft og keppt í Bandaríkjunum koma stemmdir til leiks.

GSÍ vill færa öðrum fyrirtækjum sem styrkja mótahald á Eimskipsmótaröðinni bestu þakkir fyrir stuðninginn, en sem fyrr bera mótin nöfn þeirra fyrirtækja.

Mótin á Eimskipsmótaröðinni 2014 eru eftirfarandi:

1. NETTÓ-mótið í Hólmsvelli í Leiru  í Keflavík 24.-25. maí 2014.

2. EGILS GULL-mótið á Strandarvelli á Hellu 30. maí-1. júní.

3. SÍMA-mótið á Hamarsvelli í Borgarnesi, 13.júní-15. júní.

4. SECURITAS-mótið (Íslandsmótið í holukeppni) á Hvaleyrarvelli í Hafnarfirði, 27.-29. júní

5. EIMSKIPS-mótið (Íslandsmótið í höggleik) á Leirdalsvelli í Kópavogi, 24.-27. júlí.

6. Mót á Garðavelli, Akranesi, 15.-17. ágúst.

7. GOÐA-mótið, á Jaðarsvelli, Akureyri,  30.-31. ágúst.