Ragnheiður Jónsdóttir | maí. 21. 2014 | 07:15

Dubuisson ekki með í Wentworth

Franski kylfingurinn Victor Dubuisson hefir dregið sig úr flaggskipsmóti Evrópumótaraðarinnar, BMW PGA Championship, sem hefst á morgun á Wentworth vegna axlarmeiðsla, sem hafa verið að hrjá hann.

Dubuisson, sem er nr. 23 á heimslistanum, hefir þjáðst af sinabólgu og ætlar að hvíla öxlina.  Landi hans Gary Stal, tekur sæti hans í mótinu.

Dubuisson, sem er í 6. sæti á Race To Dubai listanum og þykir líklegur til þess að komast í Ryder bikars lið Evrópu hefir ekkert spilað frá því hann dró sig úr Indonesian Masters í síðasta mánuði.

Dubuisson er vongóður um að snúa aftur til æfinga seinna í vikunni og svo gæti farið að hann geti verið með á Nordea Masters í Svíþjóð áður en hann heldur til Bandaríkjanna til þess að keppa á Opna bandaríska í Pinehurst.

„Mér líður svolítið betur, en ég er ekki orðinn 100%,“ sagði Dubuisson.