Martin Kaymer fær á sig vatnsgusu frá löndu sinni og „Sam-Düsseldorfara“ Söndru Gal – eftir sigurinn á Opna bandaríska 15. júní 2014
Ragnheiður Jónsdóttir | júní. 19. 2014 | 12:00

Hver er kylfingurinn: Martin Kaymer? (4/7)

Árið 2008 – Áframhaldandi velgengni Kaymer

Kaymer hóf árið 2008, þ.e. 20. janúar með fyrsta sigri sínum á Evrópumótaröðinni  þ.e. með sigri á Abu Dhabi Golf Championship. Með sigrinum komst Kaymer í 34. sætið á heimslistanum og var á þeim tíma eini kylfingurinn undir 25 ára aldri sem var á topp-50 á heimslistanum.

Sigurinn tryggði honum einnig þátttökurétt á heimsmótinu í holukeppni (ens. WGC-Accenture Match Play Championship) og Masters risamótið.

 Tveimur vikum eftir sigurinn á Abu Dhabi Golf Championship, varð Kaymer í 2. sæti á Dubai Desert Classic. Hann lauk lokahringnum með eftirminnilegum fugli-erni-fugli en Tiger Woods átti þó 1 högg á hann og sigraði í mótinu. Kaymer komst við þetta í 21. sæti heimslistans.

Annar sigur ársins hjá Kaymer kom á BMW International Open og varð hann fyrsti Þjóðverjinn í 20 ára sögu mótsins til þess að vinna sigur. Hann var 6 högg í forystu fyrir lokahringinn en var síðan á 75 höggum lokahringinn, sem varð til þess að hann varð að fara í bráðabana við Anders Hansen. Kaymer fékk fugl á fyrstu holu umspils og vann Hansen.

Kaymer  komst nærri því að sigra í 3. sinn á Alfred Dunhill Links Championship, en varð að lúta lægri hlut gegn Robert Karlsson í þriggja manna bráðabananum, en í honum var einnig  Ross Fisher. Kaymer varð enn í 2. sæti á Volvo Masters, 2 höggum á eftir sigurvegaranum Søren Kjeldsen. Kaymer vann sér inn  €1,794,500 árið 2008 og varð í 8. sæti peningalistans. Kaymer missti naumlega af því að komast í Ryder Cup lið Evrópu 2008, en fyrirliðinn Nick Faldo bauð Kaymer að aðstoða liðið, án þess að spila, sem Kaymer þáði. Kaymer var fulltrúi Þjóðverja í Omega Mission Hills World Cup 2008 ásamt Alex Čejka. Þeir urðu í 5. sæti í þetta sinn.