Ragnheiður Jónsdóttir | maí. 6. 2014 | 09:00

GLF: GA sér um rekstur Lundsvallar næstu 5 ár

Þann 30. apríl 2014 var undirritaður samstarfssamningur milla GA og Lundsgolfs þar sem GA tekur við rekstri Lundsvallar frá og með 1. maí 2014 og er samningurinn til 5 ára. (Uppsagnarákvæði er í samningum að einu ári liðnu)

Samningur þessi hefur það í för með sér að Lundsvöllur verður hluti af Golfklúbbi Akureyrar á samningstímanum og muna félagar í GA því hafa úr tveimur golfvöllum að velja.  Samningsaðilar er mjög ánægðir með þennan samning og telja hann mikið framfaraskref fyrir golfíþróttina hér á svæðinu og sé til þess gerður að efla og styrkja stöðu klúbbanna.

Samningur þessi hefur engar breytingar í för með sér gagnvart GA félögum, heldur er þetta eingöngu hrein viðbót við þá þjónustu sem kylfingar GA hafa aðgang að í gegnum sín félagsgjöld.

Fyrir félaga sem eru eingöngu í GLF þá gefst þeim að sjálfsögðu kostur á því að halda áfram að vera félagar í þeim góða golfklúbb og borga áfram árgjöld eingöngu í GLF.  GLF mun halda úti flottu og góðu starfi fyrir sína félagsmenn og verður það nánar auglýst síðar.  Einnig gefst félögum GLF að ganga í GA og hafa þannig fullan aðgang að báðum völlum GA.  Býður GA þá kylfinga er það vilja hjartanlega velkomna í Golfklúbb Akureyrar.

Verðskrá GA má nálgast með því að smella hér

Verðskrá GLF verður með svipuðum nótum og í fyrra, þó með einhverjum gjaldskrárhækkunum í takt við verðlag.

Eins og fyrr sagði þá er mikil ánægja með þetta samstarf innan stjórnar GA og er það nú virkilega ánægjulegt að geta boðið kylfingum upp á tvo flotta golfvelli.  Er það von GA að með þessu samstarfi þá muni gæði Lundsvallar batna enn frekar og hann verði vinsæll viðkomustaður golfara.

Er mikil tilhlökkun til samstarfsins og er horft björtum augum á framtíðana.