Ragnheiður Jónsdóttir | maí. 5. 2014 | 14:30

Jesper Parnevik sem kynnti Elínu fyrir Tiger segist hafa fyrirgefið Tiger framhjáhaldsskandala hans

Jesper Parnevik, sem hefir verið einn harðasti gagnrýnandi Tiger Woods vegna framhjáhalda þess síðarnefnda, sem komst upp um 2009 segir þá hafa samið frið yfir golfhring.

„Tiger er félagi í sama klúbbi og ég í Flórída, The Medalist,“ sagði Parnevik, 49 ára í símaviðtali við Golf Magazine. „Ég erfi aldrei neitt lengi við neinn.  Reiði mín fjaraði út býsna fljótt en þetta voru harkaleg viðbrögð mín vegna þess að Elín var eins og dóttir okkar. Tiger og ég spiluðum 9 holur á Medalist, þannig að það er gróið um heilt núna. Allir gera mistök. Hann hefir þurft að fást við nóg í lífi sínu.  Maður segir bara það sem manni finnst og heldur áfram.“

Meðan allur heimurinn jós skömmum og dró Tiger upp úr háðinu vegna framhjáhaldsskandala hans þá þögðu flestir félaga hans á PGA Tour. Og síðan var það Parnevik  sem beinlínis jós úr fötum reiði sinnar yfir Tiger í viðtali á Golf Channel vegna meðferðar hans á  Elínu Nordegren — eiginkonu Tiger á þeim tíma og fyrrum barnapíu hjá Parnevik-hjónunum.  Varðandi kjaftasöguna um að Elín hefði ráðist á Tiger með járni sagði Parnevik m.a. á sínum tíma að hann vonaðist til að hún notaði dræverinn næst.

„Við héldum að hann væri betri en hann er,“ sagði Parnevik þá, á lokaúrtökumótinu í West Palm Beach, Flórída og Parnevik, sem sigraði hefir 5 sinnum á PGA Tour sagði líka m.a. að Tiger ætti kannski ekki  að: „Just do it“  (ísl: „bara gera það“) eins og segir í auglýsingu frá  Nike.

En frá því að þessar sneiðar flugu hefir gras vaxið yfir, Tiger er nú í sambandi við Lindsey Vonn. Hann hefir að sögn sett í forgang að vera einstæður faðir 2 barna sinna og Elínar, Sam og  Charlie. Parnevik, sem er 4 barna faðir, hefir barist við allskyns meiðsl, m.a. missti hann fingur í mótorbátaslysi seint í mars fyrir 2 árum.  Hann lét græða fingurinn á aftur og er að reyna að koma skikki á leik sinn fyrir  Champions Tour. Hann fær þar að auki af og til að taka þátt í PGA Tour mótum og segir að það sem gerðist 2009 sé gleymt og grafið.

„Ég ver augljóslega miklum tíma með Elínu og hún og Tiger eru góðir vinir í dag,“ sagði Parnevik. „Ég held að þetta hafi allt blessast. Hún virðist hafa sleppt tökum á öllu því sem liðið er , líka.“