Ragnheiður Jónsdóttir | apríl. 30. 2014 | 19:00

Rory tekur þátt í Opna írska

Rory McIlroy hefir staðfest þátttöku sína í Opna írska, sem fram fer í Cork í júní 2014.

Rory er sá síðasti sem boðar þátttöku sína en áður hafa Padraig Harrington, Graeme McDowell og Darren Clarke, staðfest þátttöku, sem þýðir að allir risamótstitilhafar Írlands taka þátt í mótinu.

Fyrirliði evrópska Ryder Cup liðsins Paul McGinley, Shane Lowry,  Michael Hoey og John Daly  munu einnig taka þátt í mótinu, sem nú fer fram á Fota Island.

„Ég hef aldrei komið á Fota,“ sagði Rory, sem nú nýlega féll í 11. sæti heimslistans.

„Reyndar hef ég aldrei almennilega komið til Cork – þannig að ég þekki svæðið ekkert of vel, en ég veit að Opna írska tókst vel þegar það hefir farið fram þar áður.“

 „Þetta ætti að vera góður mótsstaður aftur og það er frábært að þeir færa Opna írska til.  Opna írska er stór partur af Evrópumótaröðinni og þannig hefir það verið í langan tíma, þannig að það er mikilvægt að það haldi áfram og ég vildi stuðnla að því eins mikið og ég get.“

„Þetta er í vikunni á eftir Opna bandaríska, þannig að ég myndi elska að fá nokkra alþjóðlega kylfinga á mótið, en mótið er sterkt í sjálfu sér og það er frábært að allir risamótshafar Írlands styðja það aftur.“