Ragnheiður Jónsdóttir | desember. 8. 2013 | 16:00

Evróputúrinn: Thomas Björn sigraði á Nedbank Golf Challenge

Það var hinn 42 ára Dani Thomas Björn, sem á sama afmælisdag og Örn Ævar „okkar“ Hjartarson, sem  stóð uppúr sem sigurvegari á Nedbank Golf Challenge, á Gary Player GC í Sun City í Suður-Afríku í dag.

Thomas Björn lék á samtals  20 undir pari, 268 höggum (67 70 68 65) Björn átti hreinlega ótrúlega flottan lokahring upp á 65 högg, þar sem hann fékk m.a. 2 erni (á 10. og 14. braut) og þar að auki 4 fugla sem urðu til þess að skollinn sem hann fékk á 18. skipti engu máli.

Björn átti nefnilega 2 högg á þá sem urðu í 2. sæti Wales-verjann Jamie Donaldson, sem búinn var að leika flott golf og var í forystu 2. og 3. keppnisdag og hefði verið það einnig 1. dag hefði hann ekki hlotið víti og Sergio Garcia, sem gerði harða sókn að sigrinum.  Donaldson og Garcia léku á samtals 18 undir pari, 270 höggum hvor; Garcia (68 73 66 65) og Donaldson (67 66 67 70).

Í fjórða sæti varð síðan nr. 1 í Evrópu, Henrik Stenson á samtals 16 undir pari, 272 höggum.

Til þess að sjá lokastöðuna á Nedbank Golf Challenge SMELLIÐ HÉR: