Ragnheiður Jónsdóttir | nóvember. 26. 2013 | 14:00

Úr framboðsræðu Margeirs Vilhjálmssonar

Margeir Vilhjálmsson, fyrrum framkvæmdastjóri Golfklúbbs Reykjavíkur bauð sig fram til forseta GSÍ, á móti fyrrum sitjandi varaforseta GSÍ, kjörtímabilið 2011-2013 og núverandi forseta GSÍ Hauki Erni Birigssyni á Golfþingi Íslands, höldnu af GSÍ s.l. laugardag, 23. nóvember 2013.

S.s. allir vita sigraði Haukur Örn í kosningunni með 120 atkvæðum gegn 29 atkvæðum Margeirs og er því réttkjörinn, nýr forseti GSÍ.

Margeir hefir nú kært kosninguna og freistar þess að fá hana dæmda ógilda. Rök hans fyrir þeirri ákvörðun eru að kjörnefnd, sem skipuð var og í áttu sæti Elsa Valgeirsdóttir, formaður GV, Garðar Eyland, GR og Ingi Þór Hermannsson, formaður GO; hafi á þinginu, fyrir kosninguna mælt með Hauki Erni í stöðu forseta.

Eins fann Margeir að því að honum hafi ekki verið veittar nema 5 mínútur til þess að kynna það sem hann vildi beita sér fyrir með framboði sínu. Reyndar voru mótframbjóðanda hans, Hauki Erni,  forseta GSÍ,  líka aðeins veittar 5 mínútur í framboðsræðu.

Golf 1 var á Golfþingi og það sem fram kom í framboðsræðu Margeirs var m.a. eftirfarandi:

Margeir gerði grein fyrir tilurð þess að hann hefði gefið kost á sér. Hann sagði að ákvörðunin um forsetakjör hans hefði verið tekin á einni kvöldstundu.  Nú þegar hann væri staddur á Golfþingi finndist honum sem hann væri enn á Golfþinginu fyrir 10 árum, þ.e. 2003.  Það væri enn verið að hjakka í sama farinu og engar breytingar yrðu með sömu stjórn. Bara verið að bæta og lagfæra smávegis í stefnu sem hefði í raun verið sú sama undanfarinn áratug.

Fram kom hjá Margeir að framlög sveitarfélaga til golfíþróttarinnar væru of lág. Það stafaði af því að golfklúbbar væru að reka fasteignina sem þeir ættu sjálfir. Nefndi hann sem dæmi að körfuboltadeildir þyrftu t.a.m. ekki að skipta um glugga fyrir eiginn reikning. Hann sagði klúbbana vera búna að koma sér í þessa stöðu sjálfir.   Á sama tíma og 60-70% af kraftinum færi í þetta, þá fækkaði börnum og unglingum í golfiu.  Þessu yrði að breyta og það væri stóra málið.

Hann sagðist jafnframt hafa lagt fram 3 meginmarkmið sem stefna yrði að: viðurkenna yrði golfið sem almenningsíþrótt – gera þyrfti afrekskylfingum hærra undir höfði m.a. þannig að Eimskipsmótaröðin yrði  færð á hærra plan gerð að atvinnumannamótaröð og í þriðja lagi  yrði að fjölga iðkendum golfs.

Margeir sagði fjörið hafa verið í gær (þ.e. föstudaginn 22. nóvember 2013) þ.e. á frábæru málþingi GSÍ. Þar hefði m.a. verið afar fróðlegt að heyra Harald Sverrisson, fyrrum formann Golfklúbbsins Kjalar og núverandi bæjarstjóra Mosfellsbæjar segja erfitt að réttlæta að setja peninga í golf og heyra hann rekja hversu mörg röng viðhorf væru gagnvart golfinu. Margeiri fannst sú stefna Mosfellsbæjar, að verja fé til kaupa á óbyggðu landi undir golfvelli í stað þess að byggja á óbyggðu landi,  vegna þess að það myndi skapa framtíðarverðmæti, vera góða.

Margeiri fannst GSÍ jafnframt standa sig vel í útgáfustarfsemi og nefndi þar að Golf á Íslandi væri dreift til allra kylfinga, sem meðlimir væru í golfklúbbum í landinu, en taldi jafnframt að gera mætti betur og auka mætti dreifingu blaðsins þ.e. dreifa því til allra landsmanna einu sinni á ári.. Hann sagði það forsvaranlegt því ekkert  væri mikið verið að tala við þá 15.000 kylfinga, sem stæðu utan klúbbanna.

Margeir sagði að golfklúbbar ættu að eiga sér heimavöll og kannski mætti hagræða með því að 2-3 klúbbar á fámennari stöðum sameinuðust um 1 golfvöll.

Margeir sagði marga góða hluti vera í áróðurspistli frá NK (sem Eggert Eggertsson, líffræðingur kynnti á Málþingi GSÍ). Hann sagði að  þannig byggjum við til fylgjendur við golf.  Golfsambandið myndi eflast með fleiri félagsmönnum  og GSÍ væri í dag of mikið að horfa inn á við.

Margeir sagði að gjalda yrði varhuga við umhverfisvottun klúbba í landinu – hann sagði að það myndi kosta stórfé – ef menn gengu hart á eftir þessu þá væri verið að þurrka út klúbba í massavís.

Margeir gagnrýndi næst að „þessi hreyfing“ væri að hittast á 2 ára fresti til að halda Golfþing. Þar hefði verið lögð fram stefna til 2020 og þessu hefðu  aðeins verið gefnar 2 klukkustundir til umræðu.  Með þessum hætti væri engin leið að horfa til framtíðar. Margeir rifjaði  upp Golfþing 2011 þá hefði verið haldinn formannafundur en ef lögin væru lesin þá væri engin heimild til slíks fundar.

Margeir lauk ræðu sinni á að segja að golfíþróttin ætti skilið miklu hærri framlög – það yrði að gera betur fyrir golfið og það yrði að sækja sér stuðning til þess að reka íþróttina – ekki vera að viðhalda fasteignum, en snúa sér að því sem skipti máli – kylfingum – m.a. börnum og unglingum  og 50+.