Ragnheiður Jónsdóttir | nóvember. 10. 2013 | 09:00

LPGA: Lu vann Mizuno Classic

Það var Teresa Lu frá Taíwan, sem stóð uppi sem sigurvegari á Mizuno Classic, sem fram hefir farið á Kintetsu Kashikojima vellinum í Shima-Shi, Mie, í Japan.

Eftir að japönsku forystukonurnar eftir 36 holur féllu úr keppni hver á eftir annarri varð ljóst að baráttan um sigurinn yrði einvígi milli Chellu Choi frá Suður-Kóreu og Teresu Lu frá Taíwan.

Báðar voru þær í 6. sæti fyrir lokahringinn, 2 höggum á eftir forystukonunum, en Choi hóf leik frábærlega með 5 fuglum á fyrri 9, en Lu hóf skyndisókn sína á seinni 9.

Lu fékk þannig 4 fugla í röð frá 10.-13. holu, en það var ekki fyrr en á 16. holu sem Lu tókst að jafna við Choi.

Lu tókst síðan að fá 2 fugla á lokaholunum, meðan Choi lauk keppni á 66 höggum og varð að sætta sig við 2. sætið, 1 höggi á eftir Lu.

Japönsku stúlkurnar Mamiko Higa og Yuki Ichinose, sem voru í forystu fyrir lokahringinn, léku báðar lokahringinn á 70 höggum og deildu 3. sætinu meðan Shiho Oyama, sem leiddi eftir 1. daginn, lauk keppni á  71 höggi og varð í 5. sæti ásamt  Yumiko Yoshida.

Fyrrum nr. 1 á heimslistanum Stacy Lewis, sem búið var að ganga brösulega hjá allt mótið lauk keppni á 70 höggum og varð T-8, 7 höggum á eftir Lu.

Til þess að sjá lokastöðuna á Mizuno Classic SMELLIÐ HÉR: