Ragnheiður Jónsdóttir | október. 30. 2013 | 08:00

Ko fær undanþágu á LPGA

Hinn 16 ára nýsjálenski kylfingur Lydia Ko hlaut náð fyrir augum bandaríska LPGA þann 28. október s.l. til þess að fá að spila á bandarísku LPGA mótaröðinni, sem er sterkasta kvenmótaröð heims.   Þá vantar næstum 1/2 ár upp á dag að Ko verði 17 ára.

Ko var búin að sækja um undanþágu á grundvelli þess að hún hefir þegar sigrað tvívegis á LPGA þ.e. á Canadian Open 2012 og svo tókst henni að verja titil sinn í ár.

Ko er þegar búin að skrifa sig í sögubækur LPGA, en hún er bæði yngsti kylfingurinn til að vinna mót á mótaröðinni og yngst til að verja titil á mótaröðinni.

Þegar hún sótti um undanþáguna var hún nr. 5 á Rolex-heimslista kvenna þó hún væri enn aðeins áhugamaður.

Ko sótti um undanþágu frá 18 ára aldursmarki í reglum LPGA og þá undanþágu veittu forsvarsmenn LPGA – enda ekki undarlegt ….. mót sem Ko tekur þátt í hafa aðdráttarafl því fólk fylkist að til þess að sjá þessa litlu undraunglingsdís golfsins spila.

Eins er fordæmi fyrir slíkri undanþágu því LPGA hefir áður veitt Lexi Thompson undanþágu síðla árs 2011, en þá vantaði nokkra mánuði upp á að Lexi yrði 17 ára, líkt og í tilviki Ko nú.   (Lexi er fædd 10. febrúar 1995 en Lydia Ko 24. apríl 1997).  Lexi var þá líkt og Ko búin að sigra á LPGA móti en það var Navistar Classic og var hún yngst allra til að sigra í móti á LPGA þar til Ko sló met hennar nokkrum mánuðum síðar s.s. segir á Canadian Open.

Ko er því ekki aðeins atvinnumaður 16 ára, heldur fær hún nú þegar að spila á sterkustu kvenmótaröð heims þar sem LPGA er og þar með að taka við verðlaunafé  – en hún er þegar búin að verða af ógrynni fjár vegna áhugamannastöðu sinnar.  T.a.m. er verðlaunaféð hæst á risamótum kvenna-golfsins, en í ár varð Ko m.a.  í 2. sæti á 5. risamóti kvennagolfsins – Evían Masters – svo dæmi sé tekið.