Ragnheiður Jónsdóttir | september. 17. 2013 | 17:30

Ryder Cup og PGA Championship fara fram á Bethpage Black 2024 og 2019

Bethpage Black í Farmingdale New York hlýtur að vera uppáhaldsvöllur sérhvers kylfings, sem þann völl hefir spilað, a.m.k. þeirra kylfinga sem elska krefjandi velli.

Á vellinum hafa margsinnis farið fram stórmót og nægir þá að nefna að Opna bandaríska risamótið fór fram þar 2002 og 2009. Á síðasta ári fór Barclays mótið í FedExCup umspilinu fram þar.

Völlurinn þekktur fyrir hávaðasaman áhorfendaskríl, sem ekki liggur á skoðunum sínum varðandi það sem fer fram á vellinum.

Forseti PGA of America President, Ted Bishop, sagði að Bethpage Black hafi verið ofarlega á óskalista kylfinga varðandi það að vera mótsstaður Ryder Cup og tiltók þá sérstaklega Phil Mickelson og Rickie Fowler.  Fowler á m.a. að hafa sagt: „Getur þú ímyndað þér forskotið sem við myndum hafa með heimavöll sem Bethpage Black og hversu ógnandi mótsstaður hann yrði?

„Og nú mun þetta umhverfi, þessi völlur, þessi borg verða mótsstaður Ryder Cup (2024) og taka mótið þangað sem það hefir aldrei komið,“ bætti Bishop við.

Í dag var nefnilega tilkynnt að bæði PGA Championship og Ryder Cup muni fara fram á Bethpage Black, PGA Championship 2019 og Ryder Cup 2024

„PGA Championship og Ryder Cup mótið munu verða mikil lyftistöng fyrir fjárhag Long Island og koma fallega, heimsklassa Bethpage State golfvöllunum á alþjóðlegt svið,“ sagði ríkisstjóri New York, Andrew Cuomo, m.a í dag við þetta tækifæri.