Ragnheiður Jónsdóttir | september. 17. 2012 | 09:15

Indverskt fyrirtæki vill fá „Tiger Woods“ sem skrásett vörumerki

Indverska fyrirtækið Om Agro Chemicals hefir sótt um einkaleyfi á vörumerkinu „Tiger Woods.“

Þetta fer öfugt í golfstjörnuna Tiger og hefir hann andmælt áformum Om Agro. Ekki er vitað hvað fyrirtækið ætlar sér með vörumerkið.

Om Agro Chemicals er málmúrvinnslufyrirtæki og hugsanlegt að þeir ætli sér að selja málmblending sem heitir í höfuðið á frægasta kylfingi allra tíma í golfkylfur. Það væri líklega til vinsælda fallið að vera með Tiger Woods málm í kylfunni sinni!!!

Nafn Tiger hefir svo sem áður verið tengt ýmsum vörum, sem ýmist hefir fengist leyfi fyrir eða ekki. Fræg eru fyrirtækin sem Tiger leggur nafn sitt við og hlýtur milljónir dala í auglýsingatekjur fyrir s.s. Nike, Gilette, Tag Heuer, AT&T, skemmtilegt japanskt „Tiger“ hitakrem o.fl. o.fl.

Svo eru aftur óprúttnir aðilar sem í gegnum tíðina hafa ætlað sér að græða á nafni Tigers. Skemmst er að minnast Jason Eric Kay sem var handtekinn fyrir að hafa límt myndir af Tiger Woods á Gatorade flöskur ásamt orðinu ótrúr þegar framhjáhaldsmál Tiger stóðu sem hæst.