Ragnheiður Jónsdóttir | nóvember. 22. 2022 | 18:00

Nýju strákarnir á PGA 2023 (10/50): Trevor Werbylo

Hér verður fram haldið að kynna stuttlega einn þeirra 25 kylfinga, sem hlutu kortið sitt á PGA Tour eftir að hafa orðið í einu af 25 efstu sætum á Korn Ferry Tour eftir reglulega keppnistímabilið 2022.

Sá sem varð í 16. sæti verður kynntur í dag, en það er Trevor Werbylo.

Trevor Werbylo fæddist 3. júní 1998 og er því 24 ára. Hann veit það líklegast ekki en hann á sama afmælis- dag og Axel „okkar“ Bóasson. Werbylo ólst upp í Tucson, Arizona og spilaði í bandaríska háskólagolfinu fyrir Arizona háskóla. Hann kynntist kærustu sinni Nicole Tiichel í 5. bekk í menntaskóla (highschool) og hún byrjaði í golfi stuttu eftir að hún kynntist honum.  Werbylo gerðist atvinnumaður í golfi 2021. Sjá má kynningarmyndskeið PGA Tour með Werbylo með því að SMELLA HÉR: 

Eftir útskrift úr háskóla árið 2021 spilaði Werbylo  á PGA í Kanada og á einn sigur á þeirri mótaröð: The Fuzzy Zoeller Classic at Covered Bridge Golf Club, árið 2021. Árið á eftir þ.e. í ár (2022) var Werbylo kominn á  Korn Ferry Tour og náði þar að sigra á Lake Charles meistaramótinu í ár og er það ein aðalástæða þess að hann er nú kominn á PGA Tour, keppnistímabilið 2022-2023.