Ragnheiður Jónsdóttir | apríl. 3. 2022 | 07:00

Masters 2022: 7 stórstjörnur golfsins ekki með

Af öllum risamótunum er Masters með fæsta þátttakendur og því einvörðungu elítuhópur kylfinga sem fær að tía upp á Augusta National.

Yfirleitt eru þátttakendur færri en 100 og þegar þetta er ritað er Golf 1 kunnugt um 91 kylfing, sem hefir þátttökurétt í þetta 1. risamót karlagolfsins.

Þegar listinn er skoðaður vekur athygli að 7 stórstjörnur golfsins munu ekki vera meðal keppenda í ár.

Óvíst er á þessari stundu hvort Tiger muni vera orðinn nógu hress til þess að keppa og því er hann ekki talinn með hér. Margir vonast þó að sjá hinn fimmfalda Masters-sigurvegara keppa, þó það myndi ganga kraftaverki næst, miðað við hversu slasaður hann var í bílslysinu fyrir ári síðan, jafnvel svo, að á tímabili var tvísýnt hvort hann fengi að halda öðrum fæti sínum.

Fyrir utan Tiger eru þessir 7 stjörnukylfingar ekki meðal keppenda á Masters í ár:

1 Phil Mickelson

Phil hefir ekki legið á skoðunum sínum varðandi sádí-arabísku ofurgolfdeildina, sem PGA Tour stendur ógn af og hefir hann staðið í þrefi við PGA. Margir telja að haldið hafi verið að honum að taka ekki þátt í Masters í ár. Phil lýsti því  yfir að „hann ætli að taka sér frí frá golfinu.“ Phil er 6-faldur risamótsmeistari, sem sigrað hefir 3 sinnum á Masters þ.e. árin 2004, 2006 og 2010.

2 Jason Day

Móðurmissirinn hefir gengið nærri fyrrum nr. 1 á heimslistanum, Jason Day. Þrátt fyrir ýmsa góða hluti, sem hann hefir gert á árinu, varð m.a. T-3 á Farmers Insurance Open núna í lok janúar, þá  er hann enn ekki meðal 100 efstu á heimslistanum og hefir því ekki þátttökurétt.

3 Martin Kaymer

Hinn þýski Martin Kaymer, er enn einn fyrrverandi nr. 1 á heimslistanum, sem ekki verður með á Masters.  Kaymer sigraði á PGA meistaramótinu árið 2010 og var í 8 vikur efstur á heimslistanum 2011. Síðan sigraði hann á 2. risamóti sínu árið 2014, en það var Opna bandaríska. Hann hefir auk þess sigrað 11 sinnum á Evróputúrnum og sigraði á Players 2014. Kaymer hefir átt fastan þátttökurétt á Masters 2008-2019, en aldrei gengið sérlega vel. Hefur sjálfur sagt að Augusta henti sér ekki. Besti árangur hans á Masters var T-16 árangur, 2017. Hann hefir ekki náð topp-10 árangri á PGA Tour frá því í júní á síðasta ári á BMW International Open. Kaymer er sem stendur kominn niður í 156. sæti heimslistans og hefir því ekki þátttökurétt á Masters í ár.

Ian Poulter ógleymanlegur í Rydernum

4 Ian Poulter 

Ryder goðsögnin Poulter náði einfaldlega ekki að tryggja sig á Masters í ár. Hann er sem stendur í 67. sæti og því utan topp-50 á heimslistanum. Hann hefir spilað á Augusta 16 sinnum og þrívegis verið meðal efstu 10.

5 Henrik Stenson

Næsti Ryder Cup fyrirliði Evrópu, Henrik Stenson, er ekki meðal keppenda á Masters. Hann sem vann einvígið við Phil Mickelson á Opna breska eftirminnilega árið 2016, er nú kominn niður í 232. sætið á heimslistanum og því óravegu frá því að eiga þátttökurétt eftir þeirri leið. Undanþága hans vegna sigurs á Opna breska er nú einnig uppurin. Stenson hefir spilað hvert ár í Masters frá 2005 og besti árangur hans þar T-5 árið 2018.

6 Matt Kuchar

Hinn 9-faldi sigurvegari á PGA Tour, Kuch, hefir nánast verið í áskrift á Masters frá árinu 2010. Í fyrsta skipti spilaði hann á Masters 1998, sem áhugamaður. Á árunum 2012-2017 varð Kuch fjórum sinnum meðal efstu 10 í mótinu. Besti árangur hans er T-3 árið 2012. Þetta hefir hins vegar verið erfitt ár fyrir Kuch sl. mánuði, þar sem hann hefir farið niður á heimslistanum í 148. sæti. Síðan á Masters í fyrra hefir hann ekki náði 8 niðurskurðum í PGA Tour mótum og hefir aðeins 1 sinni verið meðal topp-10 í móti.

Rickie Fowler með regnhlíf – gott að hafa hana í pokanum líka þegar rignir á mann í lífinu!

7 Rickie Fowler

Rickie Fowler, fimmfaldur sigurvegari á PGA mótaröðinni, hefur lengi verið talinn hugsanlega geta sigrað á Augusta. Hann hefir þrívegis verið meðal efstu 10 og árið 2018 varð hann í 2. sæti aðeins 1 höggi á eftir Patrick Reed.  En Fowler hefur ekki verið í formi og er kominn niður í 122. sæti heimslistanum í golfi. Í ár, 2022 hefir besti árangur hans verið T-42 árangur á Honda Classic mótinu. Rickie verður því ekki með á Masters í ár.

—————————————————————

Mikil eftirsjá er af ofangreindum 7 kylfingum, þ.e. að sjá þá ekki á Masters, en hins vegar er fullt af nýjum og áhugaverðum kylfingum, sem gaman er að fylgjast með. Svo er ekki loku fyrir það skotið að við sjáum a.m.k. 1 ef ekki fleiri af ofangreindum 7 aftur meðal keppanda á Masters.

Í aðalmyndaglugga: Phil og Rickie verða ekki meðal keppenda á Masters risamótinu 2022.