Ragnheiður Jónsdóttir | mars. 23. 2022 | 14:00

Nelly Korda ekki með í 1. risamóti kvennagolfsins vegna blóðtappa

Eins og fyrst var greint frá í Golfweek, skráði Nelly Korda, sem er númer 2 á Rolex-heimslista kvenna sig ekki inn á Chevron meistaramótið (fyrsta risamót ársins í kvennagolfinu) áður en skráningafrestur rann út.

Korda tilkynnti 13. mars að hún hefði greinst með blóðtappa í handlegg og að hún myndi vera heima meðan á meðferð stæði.

Í færslu sinni á samfélagsmiðlum gaf hún ekki upp tímaáætlun um endurkomu sína; hún sagði aðeins að hún vonaðist til að koma aftur „sem fyrst“.

Korda hefur verið meðal 20 efstu í öllum þremur mótum, sem hún hefir tekið þátt í á LPGA á þessu keppnistímabili, en hefur ekki spilað síðan 3. febrúar á þessu ári.

Á síðasta keppnistímabili vann hún m.a. sigur á sínu fyrsta risamót, vann til gullverðlauna á Ólympíuleikunum og vann sig upp í efsta sæti heimslistans, á meðan hún barðist allt árið við Jin Young Ko.

Chevron mótið sem hefst í næstu viku (áður þekkt sem ANA Inspiration) fer fram á Mission Hills í síðasta sinn.

Nelly Korda hefir verið að berjast um efsta sætið í mótinu undanfarin tvö ár; 2020 varð hún í 2. sæti eftir að hafa tapað í bráðabana og í fyrra 2021 varð hún T-3.