Ragnheiður Jónsdóttir | mars. 18. 2022 | 07:00

GH: Ragnar Emilsson fékk Silfurmerki ÍSÍ fyrir góð störf í þágu golfíþróttarinnar

Á ársþingi HSÞ 12. mars sl. var Ragnar Emilsson frá Golfklúbbi Húsavíkur sæmdur Silfurmerki ÍSÍ fyrir góð störf í þágu golfíþróttarinnar.

Ragnar hefur sinnt ýmsum ábyrgðarstörfum fyrir klúbbinn í gegnum tíðina, átt frumkvæði að endurbótum og framkvæmdum og unnið mikið starf við uppbyggingu á starfsemi klúbbsins.

Árangurinn er sá að Katlavöllur á Húsavík er einn af bestu 9 holu golfvöllum landsins.

Nú nýlega var hann valinn 7. besti 9 holu golfvöllur landsins af top100golfcourses.com, sem metur golfvelli um allan heim.

Andri Stefánsson framkvæmdastjóri ÍSÍ afhenti Ragnari heiðursviðurkenninguna á þinginu.