Ragnheiður Jónsdóttir | mars. 16. 2022 | 15:00

Sádí-arabíska ofurgolfdeildin hefur göngu í júní n.k.

Sádi-arabíska ofurgolfdeildin mun hefja göngu sína í London í júní og verður opnunarmótið með hæsta verðlaunafé sem nokkru sinni hefir sést.

Telegraph Sport hefur komist yfir skjöl sem sýna að opnunarmótið mun fara fram í Centurion Club nálægt St Albans og í boði munu verða 19 milljónir punda (3,36 milljarða íslenskra krónu) verðlaunafé fyrir þá 48 kylfinga sem þátt taka.

Mótið mun fara fram vikuna fyrir Opna bandaríska risamótið, sem er 3. risamót ársins.

Síðan taka við 7 regluleg mót.

Þar af verða 4 haldin í Bandaríkjunum og aftur vekur athygli þeir gríðarlegu fjármunir, sem eru í boði fyrir alla þátttakendur.  Í þessum 7 mótum verður verðlaunafé í heildina aftur 3,36 milljarðar íslenskra króna, sem og 3,8 milljónir punda (672 milljónir fyrir 3 efstu liðin í liðakeppni, sem haldin er jafnhliða.

Eftir fyrstu sjö viðburðina verður einstaklingsmeistari krýndur og hljóta 3 efstu einstaklingar tímabilsins samtals  22,8 milljónir punda (u.þ.b. 4 milljarða 35 milljónir).

Í 8. mótinu fer fram liðameistarakeppni þar sem eru 38 milljónir punda (6 milljarðar 726 milljónir íslenskra króna) í heildarverðlaunasjóðnum.

Opinber tilkynning er væntanleg seinna í dag, en Greg Norman, sem er í forsvari fyrir Sádana skrifaði m.a.:

Við lítum á okkur sem sprotafyrirtæki. Við byrjum kannski með hóflegan fjölda leikmanna, en við munum ekki vera þannig lengi. Ég skil vel að sumir leikmenn gætu valið að spila ekki með okkur strax. En eftir að við erum komin af stað trúi ég að margir þeirra sem eru ekki með okkur núna verði með okkur síðar.“