Ragnheiður Jónsdóttir | október. 31. 2019 | 07:00

Atvinnukylfingar segja hverjir eru uppáhaldsspilafélagarnir

Í atvinnumennskunni í golfi eru kylfingar oftast bara að hugsa um sjálfa sig, það þarf ekki að sýna meðkylfingum sínum tryggð, nema ef vera kynni þegar uppfylla þarf einhver verkefni frá styrktaraðilum.

Þeir víla því ekkert fyrir sér að segja álit sitt á öðrum atvinnukylfingum; sérstaklega þegar spurt er þannig að þeim er heitin nafnleynd.

Svo var einmitt í könnum sem Golf Magazine gerði í síðasta mánuði á Safeway Open mótinu – valdir voru 52 atvinnukylfingar á PGA Tour og þeir spurðir 46 spurninga í tvo daga á Silverado golfstaðnum. Meðal þeirra sem valdir voru, voru 30 kylfingar sem sigrað höfðu á PGA Tour, 3 risamótssigurvegarar og 15 leikmenn sem höfðu verið valdir í Ryderbikars- og/eða Forsetabikarslið.

Meðal spurninga sem kylfingarnir voru spurðir að var hverjir væru uppáhaldsspilafélagarnir og hverja þeir vildu síst spila með.

Það voru 7% sem svöruðu, aðspurðir hver væri í uppáhaldi, að það væri „hver sá sem spilaði hratt“; Kevin Kisner hlaut langflest atkvæði sem vinsælasti spilafélaginn, 9% atkvæða, en Kisner er þekktur fyrir að spila fremur hratt. Charles Howell III og Harold Varner III hlutu síðan 7% atkvæða, hvor.

Á hinn bóginn þegar spurt var um hvern kylfingarnir vildu síst spila við svaraði rúmlega 1/4 aðspurðra eða 26% að það væri „hver sá sem spilar hægt“ en Bryson DeChambeau og Rory Sabbatini hlutu hvor 21% atkvæða. DeChambeau spilar hægt og Sabbatini þótti leiðinlegur.

Skoðanakönnunin verður birt í heild seinna í vikunni á Golf.com.

Í aðalmyndaglugga: Þeir kylfingar sem eru óvinsælastir meðal félaga sinna: Rory Sabbatini (t.v.) og Bryson DeChambeau (t.h.)