Ragnheiður Jónsdóttir | ágúst. 6. 2019 | 20:00

„Tips“ á golfvöllum erlendis

Nú fer að koma sá tími þegar sumarið tekur enda og fylkjast íslenskir kylfingar þá þúsundum saman erlendis til að lengja sumarið.

Margir spila t.d. í Bandaríkjunum.

Á betri golfvöllum þar eru „kerrusveinar“ (ens.: cart guy) en það eru þeir sem færa kylfingnum golfbíla og sjá um sett kylfinganna þ.e. hreinsa kylfurnar í lok hrings, hreinsa golfbílinn og fara með hann aftur í golfbílastæðið.

Þeir eru að veita ákveðna þjónustu þannig að rétt er að „tipsa“ þá, þ.e. gefa þeim drykkjupeninga.

Flestir kerrusveinar fá afar lág laun og eru háðir tipsinu til þess að hækka þau aðeins. Jafnvel þó þeir fái aðeins nokkra dollara þá safnast þeir saman eftir því sem líður á daginn.

Það ætti að vera regla að hver kylfingur í holli ætti að gefa „kerrusveinunum“ $5 þannig af ef t.d. 4 eru að spila saman þá ætti hollið að gefa $20. Gefið meira, ef sérstök ánægja er með þjónustuna.

Ef ráðinn er kylfusveinn (ens.: caddy) sem ber kylfurnar allan hringinn þá eru þeir yfirleitt með fyrirfram ákveðið gjald, sem greiða þarf fyrir þjónustu þeirra og má sjá það í „pro-shopinu“ þar sem kylfusveinninn er ráðinn. Ekki gera ráð fyrir að þar með sé málið afgreitt – búið sé að greiða laun kaddýsins. Það er ákveðinn stigsmunur gerður á kylfuberum allt eftir því hvort þeir eru a, b eða c-gráðu kaddýar (allt eftir reynslunni sem þeir hafa) og yfirleitt fá þeir drykkjupeninga (tips) ofan á þóknun sína 20%-50%  eða meira, allt eftir því hversu mikil ánægja kylfingsins er með störf þeirra. Sjá má leiðbeiningar um tips á golfvöllum t.d. með því að SMELLA HÉR: 

Þetta er svipað og í ferðaþjónustunni hér – það er t.d. alkunna meðal íslenskra leiðsögumanna, að Bandaríkjamenn eru langvinsælustu ferðamennirnir hér á landi því þeir tipsa undantekningarlaust alltaf og margir hverjir rausnarlega.

Að tipsa kemur góðu orðspori á þá, sem það gera!