Ragnheiður Jónsdóttir | ágúst. 6. 2019 | 19:00

Mótaröð þeirra bestu 2019 (5): Guðrún Brá og Bjarki m/lægstu forgjöfina

Íslandsmótið í höggleik hefst fimmtudaginn n.k. 8. ágúst 2019 í Grafarholtinu, en það er 5. og síðasta mótið á „Mótaröð hinna bestu“ árið 2019.

Spilaðar eru 72 holur og lýkur mótinu sunnudaginn 11. ágúst.

Þátttakendur skráðir til leiks eru 150; 36 kvenkylfingar og 114 karlkylfingar, allt bestu kylfingar landsins, þó 3 þeirra allra bestu taki ekki þátt.

Tveir sterkustu kvenkylfingar landsins, Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, GR og Valdís Þóra Jónsdóttir, GL, taka því miður ekki þátt, því þær keppa á Opna skoska meistaramótinu, eins og áður hefir komið fram hér á Golf1.

Af kvenkylfingunum er núverandi Íslandsmeistari kvenna í höggleik Guðrún Brá Björgvinsdóttir, GK, með lægstu forgjöfina, + 2.2. og næstlægstu er „heimakonan“ Ragnhildur Kristinsdóttir, GR, með + 1.8. Hefði Ólafía Þórunn tekið þátt hefði hún verið með lægstu forgjöfina +2.5, en til stóð að hún myndi keppa. Þriðju lægstu forgjöfina af kvenkylfingunum er Hulda Clara Gestsdóttir GKG, með – 0.2.

Af karlkylfingum er Bjarki Pétursson, GKB með lægstu forgjöfina, +4.3 og „heimamaðurinn“ Haraldur Franklín Magnús, GR, með næstlægstu forgjöfina +3.9 og í þriðja sæti varðandi lægstu forgjöf er síðan núverandi Íslandsmeistari í höggleik, Axel Bóasson, GK, með + 3.8.

Enn sterkasti karlkylfingur landsins og margfaldur Íslansmeistari í höggleik, Birgir Leifur Hafþórsson, GKG, verður því miður ekki með, að þessu sinni.

Í aðalmyndaglugga: Íslandsmeistarabikararnir í höggleik í karla og kvennaflokki. Mynd: GSÍ