Ragnheiður Jónsdóttir | febrúar. 2. 2019 | 10:00

Nýju stúlkurnar á LPGA 2019: Laetitia Beck (26/58)

Hér verða líkt og á undanförnum árum kynntar þær stúlkur sem hlutu kortin sín á LPGA fyrir 2019 keppnistímabilið. Þetta eru þær sem urðu í 45. sæti eða voru jafnar í 45. sæti á lokaúrtökumóti LPGA og efstu 10 á peningalista 2. deildarinnar þ.e. Symetra Tour.

Í ár voru 48 stúlkur sem komust á LPGA gegnum lokaúrtökumótið og síðan einnig þær 10, sem efstar urðu á peningalista Symetra Tour eða alls 58 stúlkur.

Hér hafa 10 efstu á peningalista Symetra Tour verið kynntar sem og þær sem jafnar voru í 45. sætinu á lokaúrtökumóti LPGA, en það eru þær Karen Chung, frá Bandaríkjunum; P.K. Kongkraphan frá Thaílandi; Louise Strahle frá Svíþjóð og Robyn Choi frá Ástralíu.

Ólafía Þórunn „okkar“ Kristinsdóttir tók þátt í lokaúrtökumóti LPGA en varð ekki meðal efstu 45 og náði því ekki að endurnýja kortið sitt og fastan keppnisrétt á LPGA næsta keppnistímabil.

Það voru 6 stúlkur, sem deildu 39. sætinu og hafa þær einnig verið kynntar en það eru: Lee Lopez, Sandra Changkija, Lauren Coughlin og Stephanie Kono frá Bandaríkjunum; Pajaree Anannarukarn frá Thaílandi og Guilia Molinaro frá Ítalíu. Þessar 6 léku allar á samtals 9 yfir pari á lokaúrtökumótinu, hver. Síðan hafa þær sem deildu 36. sætinu verið kynntar en það eru: Suzuka Yamaguchi frá Japan; Louise Ridderström frá Svíþjóð og Sophia Popov frá Þýskalandi, en þær léku á samtals 8 undir pari.

Í dag verður fram haldið að kynna þær 3 sem deildu 33. sætinu en það eru Dori Carter og Lori Beth Adams frá Bandaríkjunum og Laetitia Baek frá Ísrael. Allar nema Laetitia hafa verið kynntar þannig í dag verður Laetitia Beck kynnt.

Laetitia Beck fæddist 5. febrúar 1992, í Antwerpen, Belgíu og verður því 27 ára eftir 3 daga. Hún er dóttir Jean Claude og Lilliane og á 3 systkini; bróðurinn Yoni, tvíburasysturina Oliviu og enn eina yngri systur.

Þegar Laetitia var 6 ára fluttist hún með fjölskyldu sinni til Caesareu í Ísrael og ólst upp þar, skammt frá eina 18 holu golfvellinum í Ísrael.

Þegar hún var 9 var hún byrjuð í golfklúbbnum í Caseareu og vann m.a. Maccabi Open í Ísrael 5 sinnum, í fyrsta sinn þegar hún var 12 ára.

Til þess að öðlast meiri samkeppni fluttist hún til Bradenton í Flórída og var þar í highschool fram að útskrift 2010, en fór alltaf heim í fríum til Caesareu.

Á árunum 2010-2014 var Laetitia við nám í Duke University og spilaði þar í bandaríska háskólagolfinu með liði skólans The Blue Devils.  Þar varð Laetitia með 10. lægsta meðalskor yfir 4 ára feril sinn í háskólagolfinu.

Hún varð ásamt 6 öðrum stúlkum í 18. sæti á lokaúrtökumóti LPGA, 2014 og komst þar með í 7 stúlkna bráðabana um 3 síðustu sætin, sem hlutu fullan keppnisrétt.

Beck varð ein af þeim heppnu og er auk þess fyrsta ísraelska stúlkan til þess að keppa á LPGA. Hún hefir meira og minna spilað á LPGA undanfarin 5 ár og tókst að endurnýja kortið sitt fyrir 2019 keppnistímabilið.