Keiliskonur
Ragnheiður Jónsdóttir | janúar. 22. 2019 | 11:00

Árið gert upp – Helstu innlendu golffréttir september 2018

Sveinn Snorrason, hrl.  fv. forseti GSÍ (1962-1969 ) lést á heimili sínu í Reykjavík, 3. september 2018, 93 ára að aldri.

Íslenska kvennalandsliðið 50+ lauk keppni í 16. sæti á EM kvenna, en mótið fór fram í Mont Garni golfklúbbnum í Belgíu, dagana 4.-8. september 2018. Íslenska kvennalandsliðið var skipað þeim, Önnu Snædísi Sigmarsdóttur, Ásgerði Sverrisdóttur, Málfríði Guðnadóttur, Steinunni Sæmundsdóttur, Svölu Óskarsdóttur og Þórdísi Geirsdóttur. Ísland vann lokaleikina gegn Slóveníu og Póllandi 5:0.

Klúbbmeistari GSS, Arnar Geir Hjartarson, varð T-17 á US Ferguson Classic mótinu sem fram fór 5. september 2018.Þátttakendur í mótinu voru 81 frá 14 háskólum og fór mótið fram í á Vesturvelli Lincoln Park golfstaðarins, í Oklahoma.

Þann 6.-9. september 2018 fór fram á LET mótaröðinni Lacoste Ladies Open de France. Keppt var á Golf du Medoc – Chateaux golfvellinum. Ólafía Þórunn Kristinsdóttir og Valdís Þóra Jónsdóttir voru á meðal keppenda. Ólafía Þórunn varð T-11 í mótinu með skor upp á samtals 7 undir pari 277 höggum (71 68 68 70). Valdís Þóra komst ekki í gegnum niðurskurð.

Atvinnukylfingarnir Axel Bóasson og Haraldur Franklín Magnús tóku þátt í Bridgestone Challenge, en mótið var hluti af Áskorendamótaröð Evrópu. Mótið fór fram á golfvelli Luton Hoo hótelsins, í Bedfordshire í Englandi, dagana 6.-9. september og komst hvorugur í gegnum niðurskurð.

Þann 9. september 2018 sigruðu Helga Kristín Einarsdóttir, GK og lið hennar í bandaríska háskólagolfinu, Albany lið Siena háskóla í árlegri viðureign skólanna.

Tumi Hrafn Kúld lék í 1. móti sínu í bandaríska háskólagolfinu, dagana 9.-10. september 2018, með golfliði Western Carolina University (WCU) Mótið var The Invitational at the Ocean Course,
á Kiawah Island í Suður-Karólínu og spilaði Tumi Hrafn á 1 yfir pari, 73 höggum – báða keppnisdagana og lauk keppni T-10 af 81 keppanda í mótinu.

Björn Óskar Guðjónsson, GM og Hlynur Bergsson, GKG, kepptu báðir á Lone Star Invitational sem fram fór á TPC Oaks vellinum í San Antonio, Texas, dagana 10.-11. september 2018. Þátttakendur voru 84 frá 15 háskólum. Björn Óskar varð í 48. sæti – lék á samtals 9 yfir pari, 153 höggum (80 73). Lið Björns Óskars, The Ragin Cajuns varð í 10. sæti í liðakeppninni. Hlynur lék á 12 yfir pari, 156 höggum (79 77) og lið hans North Texas varð T-63.

Ragnhildur Kristinsdóttir, GR og lið hennar í bandaríska háskólagolfinu Eastern Kentucky University (EKU) tóku þátt í Redbird Invitational mótinu, sem fram fór 9.-10. september 2018 Ragnhildur lék á samtals 13 yfir pari, 229 höggum ( 80-74-75). Hún varð í 18. sæti af 84 keppendum í einstaklingskeppninni. Lið EKU landaði 2. sætinu af 14 skólaliðum.

Arna Rún Kristjánsdóttir, GM lék í fyrsta móti sínu í bandaríska háskólagolfinu, með liði sínu Grand Valley State University (GVSU) í Allendale, í Michigan, dagana 9.-10. september 2018.Fyrsta mót Örnu Rún var Ulndy Fall Invitational, sem fram fór í Prairie View golfklúbbnum, í Carmel, Indiana. Arna Rún hafnaði í 71. sæti í einstaklingskeppninni af 85 keppendum.

Birgir Björn Magnússon

Birgir Björn Magnússon og lið hans í bandaríska háskólagolfinu, Bethany, tóku þátt í Central Kansas Classic mótinu, sem fram fór dagana 10.-11. september í McPherson, Kansas. Birgir Björn lauk keppni á glæsilegu skori 5 undir pari, 205 höggum (69 68 68) og varð í 2. sæti í einstaklingskeppninni af 53 keppendum. Lið Birgis Björns, Bethany,  varð í 4. sæti af 8 liðum sem þátt tóku í liðakeppninni. Gunnar Guðmundsson, GKG, tók einnig þátt í mótinu og varð í 25. sæti.

Sigurlaug Rún Jónsdóttir, GK, tók þátt í Redbird Invitational ásamt liði sínu Drake í bandaríska háskólagolfinu. Mótið fór fram 10.-11. september 2018. Sigurlaug stóð sig best í liði sínu, varð jöfn 2 öðrum í 14. sæti og lið Drake varð í 8. sæti í liðakeppninni.

Andri Þór Björnsson, GR.

Þrír íslenskir kylfingar kepptu á Tinderbox Charity Challenge, en mótið var hluti af Nordic Golf League mótaröðinni.Þetta voru þeir Guðmundur Ágúst Kristjánsson, Ólafur Björn Loftsson og Andri Þór Björnsson, sem allir komust í gegnum niðurskurð. Mótið fór fram dagana 12.-14. september 2018 í Odense Eventyr Golfklúbbnum í Óðisvéum í Danmörku.Sá sem stóð sig best íslensku keppendanna var Andri Þór, en hann lék á samtals 3 undir pari, 213 höggum (72 71 70) og varð T-16, þ.e. deildi 16. sæti með 4 öðrum af þeim 51 keppanda, sem komst í gegnum niðurskurð. Guðmundur Ágúst lék á samtals sléttu pari, 216 höggum (75 68 73). Hann varð T-29 þ.e. deildi 29. sæti, ásamt 2 öðrum.Loks varð Ólafur Björn T-43, en hann lék á 4 yfir pari, 220 höggum (73 73 74).

Þann 13. september 2018 tók Missouri Valley, lið Arnars Geirs Hjartarsonar, klúbbmeistara GSS, þátt í Graceland Fall Invite, í bandaríska háskólagolfinu. Einungis var spilaður einn 18 holu hringur og tóku þátt 56 kylfingar frá 10 háskólaliðum. Mótið fór fram í  Lamoni Country Club í Lamoni, Iowa. Arnar Geir varð T-8 með skor upp á 4 yfir pari, 74 högg og reyndar voru 5 félagar hans í Missouri Valley meðal efstu 10 og varð liðið því í 1. sæti.

Guðrún Brá Björgvinsdóttir, GK. Mynd: GSÍ

Íslandsmeistarinn í höggleik 2018, Guðrún Brá Björgvinsdóttir, atvinnukylfingur úr GK, tók þátt í móti á LET Access mótaröðinni, dagana 13.-15. september 2018. Þetta var WPGA International Challenge 2018 mótið, sem fram fór í Stoke by Nayland Hotel Golf & Spa í Englandi,Guðrún Brá komst ekki í gegnum niðurskurð.

Dagbjartur Sigurbrandsson, GR. Mynd: Golf 1

Samsung-Unglingaeinvígið fór fram á Hlíðavelli föstudaginn 14. september 2018. Þetta var í 14. skiptið sem Unglingaeinvígið er haldið, en mótið er á vegum Golfklúbbs Mosfellsbæjar. GR-ingur- inn Dagbjartur Sigurbrandsson, stóð uppi sem sigurvegari.

Björn Óskar Guðjónsson, GM og golflið hans The Ragin Cajuns úr Louisiana Lafayette háskólanum tóku þátt í Louisville Cardinal Classic mótinu, sem fram fór 15.-16. september 2018. Spilað var á golfvelli University of Louisville í Kentucky. Keppendur voru 92 frá 16 háskólum. Björn Óskar lauk keppni T-61 með skor upp á 7 yfir pari 220 högg (74 72 74).

Helga Kristín Einarsdóttir, GK og lið hennar í bandaríska háskólagolfinu, The University of Albany, urðu í 1. sæti á Dartmouth Invitational mótinu, sem fram fór í Hanover CC í Hanover, New Hampshire, dagana 15.-16. september 2018. Þátttakendur í mótinu voru 86 frá 15 háskólum. Helga Kristín varð T-6 i í einstaklingskeppninni með skor upp á slétt par, 140 högg (74 70). Særós Eva Óskarsdóttir GKG og lið hennar í bandaríska háskólagolfinu, Boston University tóku einnig þátt í mótinu og varð Særós Eva T-71 með skor upp á 25 yfir pari, 169 högg (86 83). Lið Boston University varð í 8. sæti í liðakeppninni.

Arnar Geir Hjartarson og lið hans Missouri Valley urðu í 1. sæti á Evangel Fall Invite sem fram fór dagana 17.-18. september á Rivercut golfvellinum í Springfield, Missouri. Þátttakendur í mótinu voru 61 frá 11 háskólum. Arnar Geir varð T-20 í einstaklingskeppninni á samtals 13 yfir pari, 157 höggum (79 78).

Birgir Björn Magnússon GK og Gunnar Blöndahl Guðmundsson GKG, tóku þátt í Ranger Fall Invitational, sem er einvígi milli Bethany háskóla þeirra beggja í Kansas og Northwestern Oklahoma State háskólans.Árið 2018 hafði Northwestern betur og varð Bethany að láta sér 2. sætið lynda, en mótið fór fram á heimavelli Northwestern í Meadowlake golfklúbbnum í Enid, Oklahoma, dagana 17.-18. september sl. Birgir Björn var á næstbesta og Gunnar á 3. besta skori Bethany.

Ragnhildur Kristinsdóttir, GR og félagar hennar í Earstern Kentucky háskólanum(EKU) urðu í 5. sæti á stóru háskólamóti sem fram fór dagana 17.-18. september 2018, Mercedes Benz Intercollegiate Mótsstaður var í Cherokee CC í  Knoxville, Tennessee. Þátttakendur voru 93 frá 17 háskólum. Ragnhildur varð T-41 í einstaklingskeppninni með skor upp á samtals 226 högg (80 77 69). Lið Ragnhildar, EKU, varð T-5 þ.e. deildi 5. sætinu með 2 öðrum háskólaliðum.

Sigurlaug Rún Jónsdóttir, GK og félagar hennar í Drake, golfliði Drake University í Des Moins, Iowa urðu í 2. sæti í Loyola Fall Invite, sem fram fór í Flossmoor Country Club, í Flossmoor, Illinois,  17.-18. september 2018. Þátttakendur voru 70 frá 12 háskólum. Sigurlaug Rún lék á samtals 23 yfir pari, 239 höggum (80 79 80) og varð T-18 þ.e. deildi 18. sætinu í mótinu ásamt 3 öðrum.

Saga Traustadóttir, GR, tók þátt í sínu fyrsta móti í bandaríska háskólagolfinu, en Saga stundar nú nám í Colorado State University (CSU). Það var á Col Wollenberg´s Ptarmigan Ram Classic, sem fram fór í Fort Collins, Colorado, 17.-19. september 2018. Saga var á samtals 10 yfir pari, 224 höggum (80 74 70) og lék sífellt betur og var farin að finna sig undir lokin  í mótinu og sýna sitt rétta andlit. Saga varð T-28 í sínu fyrsta móti og spilaði sem einstaklingur Þátttakendur í mótinu voru 75 frá 13 háskólum og lenti lið CSU í 6. sæti.

Haraldur Franklín. Mynd: Golf 1

Haraldur Franklín Magnús atvinnumaður úr GR, komst í gegnum niðurskurð á 1. stigi úrtökumóts fyrir þátttökurétt á Evrópumótaröð karla, sem fram fór í Austurríki 18.-21. september 2018 í Schloss Ebreichsdorf golfklúbbnum í Austurríki. Hann féll síðar úr leik á 2. stiginu. Ólafur Björn Loftsson, GKG tók einnig þátt í 1. stigs úrtökumótinu en komst ekki í gegnum niðurskuðr.

Guðmundur Ágúst Kristjánsson, atvinnukylfingur úr GR, tók þátt í Harboe Open  – by Slagelse Kommune & Sparekassen Kronjylland mótinu, sem er hluti af Nordic Golf League mótaröðinni, en mótið fór fram dagana 19.-21. september 2018. Guðmundur lék á samtals 5 undir pari, 211 höggum (70 68 73).

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, GR komst í gegnum niðurskurð á Estrella Damm Ladies Open mótinu, sem er hluti af LET mótaröðinni og fór fram 20.-23. september 2018. Ólafía Þórunn lauk keppni T-50 og lék á samtals 3 undir pari.

Þann 21. september 2018 komst Birgir Leifur Hafþórsson atvinnukylfingur úr GKG í gegnum 1. niðurskurð á Portugal Masters móti vikunnar á Evróputúrnum, 20.-23. september 2018. Birgir lék 2. hringinn á stórglæsilegum 5 undir pari, 66 höggum. Hann komst síðan ekki í gegnum 2. niðurskurð eftir 3. hring upp á 73 og munaði aðeins sárgrætilegum 2 höggum.

Þeir Egill Gunnar Ragnarsson,GKG og lið hans í bandaríska háskólagolfinu, Georgia State; Bjarki Pétursson, GB og Gísli Sveinbergsson, GK kepptu á Maui Jim Intercollegiate mótinu, sem fram fór í Mirabel golf- klúbbnum, í Scottsdale, Arizona, dagana 21.-23. september 2018. Þátttakendur í mótinu eru 78 frá 14 háskólum.

Þann 22. september tapaði Ísland gegn liði Portúgals í undanúrslitum í 2. deild Evrópumóts piltalandsliða 4,5 – 2,5. Ísland endaði í 2. sæti í höggleiknum og var einum sigri frá því að tryggja sér sæti á meðal þeirra bestu á EM á næsta ári. Með sigrinum tryggði Portúgal sér sæti í efstu deild ásamt Noregi. Næsta dag þann 23. september 2018 tryggði íslenska piltalandsliðið í golfi sér sæti í efstu deild Evrópumótsins í dag með stórsigri gegn Slóvakíu í leik um 3.-4. sætið. Þrátt fyrir tap í undanúrslitum náði Ísland að vinna leikinn um 3. sætið sem skipti öllu máli um sæti í efstu deild. Noregur og Portúgal tryggðu sér sæti í efstu deild með sigri í undanúrslitaleikjunum.

Hlynur Bergsson, GKG eða Lenny eins og hann er kallaður í Bandaríkjunum og lið hans í bandaríska háskólagolfinu, University of North Texas, tóku þátt í Trinity Forest Invitaional, sem fram fór í Trinity Forest golfklúbbnum í Dallas, Texas, dagana 23.-25. september s.l. Þátttakendur voru 84 frá 13 háskólum. Hlynur lék á samtals 1 undir pari, 212 höggum (71 68 73) og varð T-21 í einstaklingskeppninni.

Björn Óskar Guðjónsson, GM og lið hans í bandaríska háskólagolfinu, The Ragin Cajuns lönduðu 8. sætinu á Inverness Intercollegiate, en mótið fór fram dagana 24.-25. september 2018 Mótið fór fram í Inverness Club í Toledo, Ohio. Björn Óskar varð T-41 af 78 keppendum.

Helga Kristín Einarsdóttir, GK og golflið hennar í bandaríska háskólagolfinu University at Albany urðu í 6. sæti á Boston College Intercollegiate. Þátttakendur voru 89 frá 17 háskólum. Mótið fór fram 24.-25. september 2018 í Blue Hill CC í Canton, Massachusetts.

Stefán Bogason, GR keppti ekki með liði sínu Flórída Tech, en spilaði sem einstaklingur í 1. móti sínu á 2018-2019 keppnistímabilinu í bandaríska háskólagolfinu, 24.-25. september 2018. Mótið sem Stefán tók þátt í er Cougar Invitational Presented by Aflac, en gestgjafi var Columbus State University. Þátttakendur voru 90 frá 17 háskólum.

Dagana 24.-25. september s.l. fór fram MVC Fall Invitational á Indian Foothills golfvellinum, í Marshall, Missouri. Þátttakendur voru 47 frá 8 háskólum. Meðal þátttakenda voru 3 íslenskir kylfingar, Birgir Björn Magnússon og Gunnar Guðmundsson sem kepptu með liði sínu Bethany Swedes og „heimamaðurinn“ og klúbbmeistari GSS 2018 og mörg undanfarin ár, Arnar Geir Hjartarson. Skemmst er frá því að segja að Birgir Björn landaði 4. sætinu í einstaklingskeppninni og Arnar Geir 5. sætinu!

Þann 25. september 2018 fagnaði íslenski golffréttavefurinn Golf 1 7 ára afmæli sínu!

Þann 27. september 2018 birtist á Golf 1 frétt þess efnis að Sveiflurnar hefðu farið til Írlands. Fréttin var eftirfarandi: „Hópur þrettán Keiliskvenna á aldrinum 68-80 (Sveiflurnar) fóru nú um daginn til Írlands í golfferð. Upphaflega var áætlað að 14 færu í þessum hóp, en ein veiktist og gat því miður ekki farið. Hópurinn er nú kominn heim eftir yndislega 5 daga í Carton House, þar sem leikið var á 2 völlum, O‘Meara og Montgomerie. Veðrið lék ekki við hópinn fyrsta daginn á O‘Meara, en það var þokkalegt, síðan á Montgomerie í rosalegu roki en þurru veðri.  Á þeim velli eru amk. 100 „sandkassar“, þannig að völlurinn er ekki sá auðveldasti. Þriðja daginn var spilað á O‘Meara, rástími kl. 08:00. Keiliskonur spiluðu í hífandi roki og grenjandi rigningu, enginn úti nema þær og það varð óspilandi og þær urðu að hætta eftir 4 holur. Siðasta daginn var síðan Montgomerie spilaður, þar tókst að ljúka hringinn í grenjandi rigningu, en allt gekk ljómandi vel, enda eru „Sveiflurnar“ „hörkukellur“.Á Carton House fór Heimsmestaramót áhugakylfinga fram nú fyrr á árinu. Það var Magnús Birgisson, golfkennari sem skipulagði ferðina.

Atvinnukylfingurinn Guðrún Brá Björgvinsdóttir, GK, tók þátt í móti á sænsku mótaröðinni, Nøtterøy Open, sem fram fór dagana 27.-29. september 2018 í Noregi. Guðrún Brá lék á samtals 1 undir pari, 215 höggum (72 70 73) og deildi 4. sætinu með 3 öðrum keppendum, My Leander frá Svíþjóð og þeim Celine Borge og Mariell Bruun frá Noregi

Arna Rún Kristjánsdóttir, GM og lið hennar í bandaríska háskólagolfinu, Grand Valley State University (GVSU) tóku þátt í 10th Annual Gilda´s Club Lakers Fall Invite. Mótið fór fram 29.-30. september 2018 í Meadows golfklúbbnum í Allandale, Michigan og voru þátttakendur 77 frá 13 háskólum. Arna Rún lék á samtals 17 yfir pari, 161 höggi (84 77) og landaði 18. sætinu í einstaklingskeppninni, en Arna Rún spilaði sem einstaklingur. Lið Örnu Rún, (GVSU), varð í 2. sæti í liðakeppninni.

Sigurlaug Rún Jónsdóttir, GK og lið hennar í bandaríska háskólagolfinu Drake tóku þátt í Diane Thomason Invitational. Mótið fór fram dagana 29.-30. september 2018 á Finkbine golfvellinum í Iowa City í Iowa. Þátttakendur 54 frá 9 háskólum. Sigurlaug Rún spilaði á samtals 243 höggum (79 83 81) og varð T-36 í einstaklingskeppninni en Drake hafnaði í 5. sæti í liðakeppninni.