Kongkraphan frá Thaílandi – sigurvegari Ladies Indonesia Open 2012
Ragnheiður Jónsdóttir | desember. 17. 2018 | 10:00

Nýju stúlkurnar á LPGA 2019: PK Kongkraphan (11/58)

Hér verða líkt og á undanförnum árum kynntar þær stúlkur sem hlutu kortin sín á LPGA fyrir 2019 keppnistímabilið. Þetta eru þær sem urðu í 45. sæti eða voru jafnar í 45. sæti á lokaúrtökumóti LPGA og efstu 10 á peningalista 2. deildarinnar þ.e. Symetra Tour.

Í ár voru 48 stúlkur sem komust á LPGA gegnum lokaúrtökumótið og síðan einnig þær 10, sem efstar urðu á peningalista Symetra Tour eða alls 58 stúlkur.

Hér hafa 10 efstu á peningalista Symetra Tour verið kynntar og í dag verður hafist á að kynna 45 efstu og þær sem jafnar voru í 45. sætinu á lokaúrtökumóti LPGA.

Ólafía Þórunn „okkar“ Kristinsdóttir tók þátt í lokaúrtökumóti LPGA en varð ekki meðal efstu 45 og náði því ekki að endurnýja kortið sitt og fastan keppnisrétt á LPGA næsta keppnistímabil.

Það voru 4 stúlkur sem rétt komust á LPGA með fullan spilarétt: bandarísku stúlkurnar Robyn Choi og Karen Chung, P.K. Kongkraphan frá Thaílandi og Louise Strahle frá Svíþjóð.  Sú sem kynnt verður í dag er PK Kongkraphan .

Patcharajutar Kongkraphan fæddist í Khonkaen, Thaílandi.

Hún byrjaði að spila golf 5 ára.

Hún sigraði Asia Pacific Junior Golf Championship árið 2006 og varð í 2. sæti í Sea Games, árið 2007.

Patcharajutar gerðist atvinnumaður í nóvember 2009. Hún hefir m.a. unnið 6 mót haldin á vegum China Ladies Professional Golf Association (CLPGA). Kongkraphan sigraði m.a. nú nýverið þ.e. 20. október 2012 í Ladies Indonesia Open, sem er það mót á Asíumótaröð kvenna sem er með hæsta verðlaunaféð.

Hún reyndi fyrst fyrir sér á lokaúrtökumótum LPGA 2012 og 2013 en hefir ekki haft heppnina með sér fyrr en í ár.

Meðal áhugamála Patcharajutar eru að syngja, horfa á kvikmyndir og slaka á. Hún segir pabba sinn hafa haft mest áhrif á feril sinn.