Ragnheiður Jónsdóttir | nóvember. 28. 2018 | 18:00

Minning Anna Rún Sigurrósardóttir

Í dag hefði Anna Rún Sigurrósardóttir orðið 50 ára, en hún lést úr krabbameini langt um aldur fram.

Anna Rún var fædd í dag 28. nóvember 1968, en lést 1. febrúar 2014.

Anna Rún var félagi í Golfklúbbi Reykjavíkur (GR) og skólasystir þeirrar er þetta ritar í Menntaskólanum í Reykjavík.

Anna Rún var yfirleitt í verðlaunasæti á opnum golfmótum. Hún vann t.d. til nándarverðlauna á 8. braut á Opna Helenu Rubinstein mótinu uppi á Skaga 9. júlí 2011; var aðeins 0,67 m frá pinna og var t.d. í 7. sæti á Art Deco mótinu á Vatnsleysunni, 6. ágúst sama ár (af 86 þátttakendum).

Anna Rún (2. f.h.) ásamt holli sínu á Helenu Rubinstein mótinu upp á Skaga, 9. júlí 2011. Mynd: Golf 1

Þegar Eimskip og GSÍ stóðu fyrir Gott Golf mótinu til stuðnings Krafts, 2010, þar sem einungis þeir fengu að taka þátt í mótinu á Flúðum, sem söfnuðu mestum áheitum – þá flaug Anna Rún inn í mótið, en hún sigraði með miklum yfirburðum í áheitakeppninni, sem efnt var til. Hún sagði að móti loknu að hún hefði aðeins óskað þess að geta safnað enn meiru!

Anna Rún var góð ekki bara í golfi heldur líka að öllu öðru leyti. Hún var lágforgjafarkylfingur og það er fréttaritara Golf 1 minnisstætt að Önnu Rún fannst engin minnkun í því að spila við sig, háforgjafarkylfinginn án þess að vera of mikið að segja til eða finna að neinu. Anna Rún var reglulega góður og skemmtilegur spilafélagi og frábær kylfingur!

Móðir Önnu Rún var Sigurrós Jónasdóttir f. 7. júní 1935, d. 27. október 1975. Anna Rún var yngst 5 systkina, ógift og barnlaus.