Ragnheiður Jónsdóttir | nóvember. 13. 2018 | 18:00

Birgir Leifur úr leik á lokaúrtökumótinu

Birgir Leifur Hafþórsson, atvinnukylfingur úr GKG, er úr leik á lokaúrtökumóti Evrópumótaraðarinnar. Keppt er á Lumine golfsvæðinu við Tarragona rétt utan við Barcelona á Spáni.

Sjöfaldi Íslandsmeistarinn lék fyrstu fjóra hringina á -4 samtals (67-69-76-70). Birgir endaði í 84. sæti en 25 efstu í mótslok fá fullan keppnisrétt á Evrópumótaröðinni.

Birgir Leifur var aðeins tveimur höggum frá því að komast í gegnum niðurskurðinn eftir fjórða hringinn. En 77 efstu kylfingarnir leika tvo hringi til viðbótar. Það hefði breytt miklu fyrir Birgi að komast í gegnum niðurskurðin. Þannig hefði hann tryggt sér keppnisrétt á Áskorendamótaröðinni á næsta tímabili í styrleikaflokki 9 og einnig hefði hann verið með takmarkaðan rétt á Evrópumótaröðinni í styrkleikaflokki 22.

Það er að miklu að keppa á þessu móti. Alls fá 25 efstu í mótslok keppnisrétt á Evrópumótaröðinni þar sem þeir verða í styrkleikaflokki 17 á næsta tímabili á Evrópumótaröðinni og í styrkleikaflokki 5 á Áskorendamótaröðinni.

Þeir kylfingar sem komast í gegnum niðurskurðinn að loknum fjórða hringnum og eru fyrir neðan 25. sætið komast í styrkleikaflokk 22 á Evrópumótaröðinni – og verða í styrkleikaflokki 9 á Áskorendamótaröðinni.

Þeir kylfingar sem komast ekki í gegnum niðurskurðinn komast samt sem áður í styrkleikaflokk 15 á Áskorendamótaröðinni á næsta tímabili. Birgir fær því eitthvað af verkefnum á næsta tímabili á næsta ári á næst sterkustu atvinnumótaröð Evrópu.