Ragnheiður Jónsdóttir | apríl. 2. 2018 | 20:00

LPGA: Pernilla Lindberg sigraði á ANA risamótinu!!!

Það var sænski kylfingurinn Pernilla Lindberg, sem sigraði eftir bráðabana á fyrsta kvenrisamóti ársins af fimm.

Ólafía Þórunn „okkar“ Kristinsdóttir tók þátt í mótinu, en komst því miður ekki í gegnum niðurskurð þrátt fyrir frábæra byrjun þar sem hún fór m.a. holu í höggi!

Pernilla er fædd 13. júlí 1986 og er frá Bollnäs í Svíþjóð. Hún verður því 32 ára næstkomandi júlí.

Sigurinn á ANA Inspiration er hennar fyrsti á LPGA og sá eini í 250 tilraunum.

Eftir hefðbundnar 72 holur voru Pernilla, Jennifer Song frá Bandaríkjunum og Inbee Park frá S-Kóreu efstar og jafnar; allar búnar að spila á samtals 15 undir pari, 273 höggum hver; Pernilla (65 67 70 71); Jennifer (69 69 68 67) og Inbee (70 69 67 67).

Það  kom því til bráðabana milli þeirra þriggja og var Jennifer sú fyrsta til að falla úr keppni. Pernilla og Inbee bitust áfram um sigurinn og þurfti 8 holur til þess að ráða úrslitum í mótinu, þar sem Pernilla hafði betur.

Pernilla hlaut sigurtékka upp á $420,000.00 (u.þ.b. 42 milljónir íslenskar krónur).

Sjá má hápunkta í leik Pernillu á lokahring Ana Inspiration með því að SMELLA HÉR: 

Til þess að sjá lokastöðuna á ANA Inspiration SMELLIÐ HÉR: