Ragnheiður Jónsdóttir | mars. 15. 2018 | 23:00

LPGA: Ólafía Þórunn á 74 höggum e. 1. hring á Bank of Hope mótinu

Ólafía Þórunn „okkar“ Kristinsdóttir, GR og LPGA hóf leik í dag á 3. LPGA mótinu sínu í ár; Bank of Hope mótinu, sem fer fram í Arizona

Ólafía hóf keppni  kl. 16:01 að íslenskum tíma og  er beðist velvirðingar á mistökum í áður auglýstum rástíma Ólafíu Þórunnar, en í frétt Golf 1 fyrr í dag segir að rástími hennar sé kl. 23:01.  Byggðust þau mistök á því að Golf 1 taldi rástíma kl. 16:01 vera gefinn upp á staðartíma en 7 klst. tímamismunur er á Arizona og Íslandi.

Ólafía Þórunn lék 1. hring í dag á 2 yfir pari, 74 höggum; fékk 3 fugla og 3 skolla og var á parinu fyrir lokaholuna, sem hún fékk því miður ólukkans skramba á og færðist við það neðarlega á skortöfluna.

Sem stendur er Ólafía T-106 en nokkrar eiga eftir að ljúka leik í dag þannig að sætistala Ólafíu getur rokkað til.

Þegar þetta er ritað er hin franska Karine Icher efst á 5 undir pari, en skor eru fremur lág í þessu móti.

Fylgjast má með stöðunni á Bank of Hope mótinu með því að SMELLA HÉR: