Ragnheiður Jónsdóttir | mars. 15. 2018 | 18:00

Nýju strákarnir á Evróputúrnum 2018: Pontus Videgren (32/33)

Það voru 33 kylfingar sem tryggðu sér keppnisrétt á Evrópumótaröðinni í gegnum lokaúrtökumót Evrópumótaraðarinnar, sem fram fór dagana 11.-16. nóvember sl. á Lumine golfstaðnum á Spáni.

Það voru 25 efstu og þeir sem jafnir voru í 25. sætinu, sem tryggðu sér keppnisrétt.

Nú nýlega voru kynntir þeir sem deildu 12. sætinu á samtals 16 undir pari en það voru: Pep Angles og Gonzalo Fernandez-Castaño frá Spáni og Laurie Canter frá Englandi. Síðan voru þeir 3 kynntir sem deildu 9. sætinu, sem léku á 17 undir pari, hver en það voru þeir Josh Geary, frá Ástralíu; Mark Foster frá Englandi og Connor Syme frá Skotlandi. Síðast var sá kynntur sem var einn í 8. sætinu á samtals 18 undir pari, en það var Svíinn Kristoffer Broberg.

Sex „strákar“ deildu með sér 2. sætinu en það voru: Jacques Kruyswijk frá S-Afríku; Andrea Pavan, frá Ítalíu; Pontus Videgren, frá Svíþjóð; Anders Hansen og Jeff Winther,f rá Danmörku og Charlie Ford, Englandi, en þeir léku allir á samtals 19 undir pari, hver.

Allir hafa þegar verið kynntir að undanskildum Pontus Videgren og verður hann kynntur í dag.

Pontus Videgren fæddist 14. október 1990 í Danderyd, Svíþjóð og er því 27 ára.

Hann er 1,74 m á hæð og 76 kg.

Í Svíþjóð er Pontus í Stockholms Golfklubb Kevinge og á þar aldursmet, en hann var yngsti klúbbmeistari klúbbsins, aðeins 13 ára, 2003.

Sem áhugamaður tók Pontus þátt í ýmsum liðakeppnum f.h. Svíþjóð þ.e.: Amateur Eisenhower Trophy 2008, 2010 og 2012; St Andrews Trophy 2010 (sigraði) Palmer Cup 2010, 2011, 2012 (sigraði) og 2013.

Pontus var í bandaríska háskólagolfinu og lék með liði UCLA í Kaliforníu.

Hann gerðist atvinnumaður í golfi 2013.

Áhugamálin fyrir utan golfið eru tennis og íshokkí.