Ragnheiður Jónsdóttir | mars. 13. 2018 | 18:00

Áskorendamótaröðin: Axel og Birgir báðir með í Kenía!!!

Atvinnukylfingarnir Birgir Leifur Hafþórsson, úr GKG, og Axel Bóasson úr GK, hefja tímabilið á Áskorendamótaröðinni á Barclays mótinu sem fram fer í Kenía í Afríku. Axel, sem er Íslandmeistari í golfi 2017, komst inn á mótið í dag en hann var fyrsti maður á biðlista í upphafi þessarar viku.

Mótið er hluti af Áskorendamótaröðinni, næst sterkustu mótaröð Evrópu. Birgir Leifur sigraði á einu móti í fyrra á þessari mótaröð og var það jafnframt fyrsti sigur hjá íslenskum kylfingi á mótaröð í næst efsta styrkleikaflokki atvinnukylfinga.

Mótið fer fram á Muthaiga vellinum dagana 22. – 25. mars.

Axel er með keppnisrétt á Áskorendamótaröðinni eftir frábæran árangur á Nordic Tour atvinnumótaröðinni á síðasta ári. Hann fær takmarkaðan fjölda móta á þessu tímabili á meðan Birgir Leifur er með keppnisrétt á öllum mótum tímabilsins.

Axel varð stigameistari á Nordic Tour og tryggði sér keppnisrétt á Áskorendamótaröðinni 2018.

Texti og mynd: GSÍ