Ragnheiður Jónsdóttir | janúar. 19. 2018 | 18:00

Nýju strákarnir á Evróputúrnum 2018: Matthew Baldwin (12/33)

Það voru 33 kylfingar sem tryggðu sér keppnisrétt á Evrópumótaröðinni í gegnum lokaúrtökumót Evrópumótaraðarinnar, sem fram fór dagana 11.-16. nóvember sl. á Lumine golfstaðnum á Spáni.

Það voru 25 efstu og þeir sem jafnir voru í 25. sætinu, sem tryggðu sér keppnisrétt.

Nú hafa verið kynntir þeir 9 sem deildu 25. sætinu og rétt sluppu inn á Evróputúrinn.

Nú hafa Jonathan „Jigger“ Thomson frá Englandi og Henric Sturehed frá Svíþjóð verið kynntir, en þeir eru tveir af 7 sem deildu 18. sætinu. Þessir 7 spiluðu allir á samtals 14 undir pari. Í kvöld verður Matthew Baldwin kynntur.

Matthew Baldwin fæddist 26. febrúar 1986 og er því 31 árs.

Baldwin er frá Southport í Lancashire á Englandi – sama heimabæ og nr. 1 í Evrópu Tommy Fleetwood er frá.

Hann er 1,8 m á hæð og 79 kg.

Baldwin byrjaði að spila golf 3 ára þegar afi hans tók hann á æfingasvæðið til þess að slá bolta.

Hann spilaði fyrir England Boys í tvö ár og var í liði Íra/Breta sem sigraði Jacques Léglise bikarinn árið 2004. Hann spilaði síðan 3 ár með elítunni á Englandi og tók m.a. þátt í Home Internationals  2007 áður en hann gerðist atvinnumaður í golfi 2008.

Árið 2009 keppti Baldwin á Alps Tour og varð í 23. sæti á stigalistnum þar, eftir að hafa náð 6 topp-10 áröngrum.

Hann keppti í 13 mótum á Áskorendamótaröð Evrópu 2010 og var kominn með kortið sitt á Áskorendamótaröðinni 2011.

Árið 2011 sigraði Olsen á Fred Olsen Challenge de España mótinu á Áskorendamótaröðinni, sem tryggði þar með kortið sitt á mótaröð nr. 1 í Evrópu, Evrópumótaröðinni

Baldwin átti frábært nýliðaár þar, 2012, komst í m.a. í gegnum niðurskurð í 2 risamótum eftir að hafa komist í gegnum úrtökumót fyrir Opna bandaríska og Opna breska.

Afi Baldwin, Ronald Ryder, var í liði Englands og Bretlands í rugby og varð þekktur í Warrington.