Ragnheiður Jónsdóttir | janúar. 16. 2018 | 18:00

Nýju strákarnir á Evróputúrnum 2018: Jonathan Thomson (10/33)

Það voru 33 kylfingar sem tryggðu sér keppnisrétt á Evrópumótaröðinni í gegnum lokaúrtökumót Evrópumótaraðarinnar, sem fram fór dagana 11.-16. nóvember sl. á Lumine golfstaðnum á Spáni.

Það voru 25 efstu og þeir sem jafnir voru í 25. sætinu, sem tryggðu sér keppnisrétt.

Nú hafa verið kynntir þeir 9 sem deildu 25. sætinu og í dag verður byrjað að kynna þá 7 sem deildu 18. sætinu.

Þeir spiluðu allir á samtals 14 undir pari.

Í dag verður  Jonathan Thomson frá Englandi kynntur.

Jonathan Thomson fæddist 4. apríl 1996 og er því 21 árs.

Hann gerðist atvinnumaður í golfi 2016.

Hann fékk viðurnefnið „Jigger“ þar sem hann dansaði um í bleyjunum sínum sem ungabarn – þ.e. „jiggaði“ til og frá.

Thomson byrjaði í golfi 5 ára í Rotherham Golf Club þar sem hann æfði ásamt öðrum efnilegum ungmennum m.a. Masters sigurvegaranum Danny Willett.

Jonathan var greindur með hvítblæði 7 ára og eftir að hafa þurft að hætta í öðrum íþróttum gat hann samt verið í golfi.

Hann var búinn að ná sér við 12 ára aldurinn.

Thomson er með hávaxnari mönnum á Evróputúrnum; er 2 metrar 6 cm.

Sem stendur er Thomson nr. 620 á heimslistanum.