Ragnheiður Jónsdóttir | janúar. 2. 2018 | 10:00

Nýju stúlkurnar á LPGA 2018: Sophia Popov (14/49)

Það voru 49 stúlkur sem hlutu spilarétt á LPGA mótaröðina 2018 í gegnum lokaúrtökumót LPGA sem fram fór á LPGA International vellinum í Flórída dagana 28. nóvember – 3. desember s.l.

Það voru 29 sem hlutu takmarkaðan spilarétt og 20 efstu stúlkurnar sem hlutu kortið sitt á LPGA þ.e. fullan þátttökurétt í öllum mótum LPGA 2018.

Venja hefir verið undanfarin ár að kynna „nýju“ stúlkurnar á LPGA og líkt og áður verður byrjað að kynna þær sem rétt sluppu inn á mótaröðina og hlutu takmarkaðan spilarétt endað á þeirri sem sigraði í lokaúrtökumótinu, en það var japanska stúlkan Nasa Hataoka.

Nú verða kynntar þær 13 stúlkur, sem deildu 32. sætinu og hlutu takmarkaðan spilarétt og í dag verðu Sophia Popov kynnt, en átta fyrstu af stúlkunum 13, Martina Edberg og Camilla Lennarth frá Svíþjóð, Alexandra Newell og Lori Beth Adams frá Bandaríkjunum, Wichanee Meechai og Pannarat Thanapoolboonyaras frá Thaílandi, Dottie Ardina frá Filippseyjum og kanadíska stúlkan Maude Aimee Leblanc hafa þegar verið kynntar.

Sophia Popov fæddist  í Framingham, Massachusetts, 2. október 1992 og er því 25 ára.

Sophia komst bæði í gegnum úrtökumót LPGA og Evrópumótaraðar kvenna (LET) árið 2015 sem er frábær árangur, reyndar landaði Sophia 3. sætinu á Lalla Aicha Tour School í Marokkó og hlaut fullan keppnisrétt 2015 á LET en aðeins takmarkaðan spilarétt á LPGA eins og í þetta skiptið.

Í dag býr Popov í Naples, Flórída. Þrátt fyrir fæðingarstað sinn er Popov þýskur ríkisborgari.

Hún gerðist atvinnumaður í golfi 14. júlí 2014 og hefir átt sæti í þýska golflandsliðinu frá árinu 2007.

Popov átti glæstan feril sem áhugamaður en hún vann m.a. í 10 sterkum áhugamannamótum, sem áhugamaður.

Popov segir uppáhaldsgolfvöll sinn vera Cypress Point í Bandaríkjunum.

Sterkustu þættirnir í leik hennar eru drævin og löngu járnin og nokkuð sérstakt við Popov er að hún notar Kramski pútter.

Þjálfari Popov er Stephan Morales.

Popov er með marga sterka styrktaraðila m.a. Allianz, þýska golfsambandið og Cobra Puma golf.