Ragnheiður Jónsdóttir | nóvember. 25. 2017 | 18:00

Nýju strákarnir á Evróputúrnum 2018: Matthew Nixon (2/33)

Það voru 33 kylfingar sem tryggðu sér keppnisrétt á Evrópumótaröðinni í gegnum lokaúrtökumót Evrópumótaraðarinnar, sem fram fór dagana 11.-16. nóvember sl. á Lumine golfstaðnum á Spáni.

Það voru 25 efstu og þeir sem jafnir voru í 25. sætinu, sem tryggðu sér keppnisrétt.

9 kylfingar deildu með sér 25. sætinu í ár; léku allir hringina 6 á samtals 13 undir pari.

Í dag verður Matthew Nixon kynntur  en hann var einn af þeim 9 heppnu síðustu, sem hlutu kortið sitt; Cristofer Blomstrand var kynntur í gær.

Matthew Nixon fæddist í Manchester á Englandi 12. júní 1989 og er því 28 ára. Hann hætti að nota plastkylfur 5 ára og fór að nota alvöru upp frá því.

Klúbburinn sem hann er félagi í á Englandi er Ashton under Lyne, en þar hefir hann verið allt frá 7 ára aldri. Hápunktar áhugamannsferils hans er sigur á British Boys Amateur Championship árið 2006 á Royal Aberdeen.

Hann ætlaði sér að spila í Walker Cup 2011 en freistingin að gerast atvinnumaður á Evróputúrnum var of mikil.

Nixon gerðist því atvinnumaður árið 2010 og sama ár komst hann þá þegar í gegnum Q-school. En eftir að hafa aðeins náð að komast í gegnum 6 niðurskurði á keppnistímabilinu 2011 varð hann aftur að fara í Q-school í desember 2011 og þar nældi hann sér í 14. kortið sem í boði var þ.e. varð í 14. sæti á l0kaúrtökumótinu.

Nixon vonast til að feta í fótspor vinar síns Danny Willet og festast í sessi á Evróputúrnum. Hann varð að fara aftur í Q-school í 21012 og vann sér aftur inn kortið sitt og síðan aftur nú 2017 og nú er hann aftur kominn á Evróputúrinn.

Helstu áhugamálin fyrir utan golfið eru bílar og Formúla 1. Mestu fyrirmyndirnar í golfinu eru Tiger Woods, Ernie Els og Rory McIlroy.