Birgir Leifur Hafþórsson. Mynd: Golf 1.
Ragnheiður Jónsdóttir | nóvember. 22. 2017 | 10:00

Birgir Leifur mætir Adam Scott og Sergio Garcia í Ástralíu

Birgir Leifur Hafþórsson, atvinnukylfingur úr GKG, verður á meðal keppenda á PGA meistaramótinu í Ástralíu. Mótið er hluti af Evrópumótaröðinni og fer það fram dagana 30. nóvember – 3. desember og er leikið á Royal Pines vellinum. Mótið er sameiginlegt verkefni hjá Evrópumótaröðinni og PGA atvinnumótaraðarinnar í Ástralíu. PGA meistaramótið í Ástralíu á sér langa sögu sem nær allt aftur til ársins 1905 þegar fyrst var keppt um titilinn.

Á meðal keppenda eru margir af bestu kylfingum heims og má þar nefna Adam Scott frá Ástralíu og Sergio Garcia frá Spáni.

Birgir Leifur gerir ráð fyrir að komst inn á 10-15 mót á Evrópumótaröðinni samhliða því að vera með keppnisrétt á öllum mótum næsta tímabils á Áskorendamótaröðinni. Sigur hans á Áskorendamót í ágúst á þessu ári styrkir stöðu hans varðandi þátttöku á Evrópumótaröðinni sem er sú sterkasta í Evrópu.

Birgir Leifur lék síðast á Evrópumótaröðinni árið 2011 en þá fékk hann tækifæri á einu móti. Alls hefur hann leikið á 60 mótum á Evrópumótaröðinni. Hann var með keppnisrétt á Evrópumótaröðinni 2007-2009 og á þeim tíma lék hann á samtals 43 mótum á mótaröð þeirra bestu í Evrópu. Birgir Leifur er eini íslenski karlkylfingurinn sem hefur náð að tryggja sér keppnisrétt á Evrópumótaröðinni.

Birgir Leifur fer frá Ástralíu yfir til Suður-Afríku þar sem hann keppir á Joburg mótinu á Evrópumótaröðinni dagana 7.-10. desember. Svo gæti farið að Birgir Leifur keppi á tveimur mótum á Evrópumótaröðinni í röð í Suður-Afríku BMW mótið fer þar fram 11.-14. janúar 2018.

Eins og áður segir er ljóst að keppnisdagskrá Birgis Leifs verður þétt á árinu 2018 og nóg af mótum sem standa honum til boða. Það sem er ljóst að hann getur líklega leikið á 10-15 mótum á Evrópumótaröðinni og á Áskorendamótaröðinni getur hann valið þau mót sem henta hverju sinni.

Texti: GSÍ