Ragnheiður Jónsdóttir | nóvember. 20. 2017 | 14:00

Nýju strákarnir á PGA 2018: Matt Jones (34/50)

Það voru 25 efstu á peningalista Web.com Tour sem hlutu kortin sín og þar með fullan spilarétt á PGA Tour, keppnistímabilið 2017-2018.

Golf 1 hefir haft þann vana á undanförnum árum að kynna alla þessa 50 nýju og ekki svo nýju, sem hins vegar hljóta spilarétt sinn að nýju á PGA Tour í gegnum 2. deildina, Web.com Tour.

Byrjað var á því að kynna þá 25 sem efstir voru á peningalista Web.com Tour og hlutu þannig kortin sín í 1. deild, PGA Tour.

Líkt og venja er hér á Golf 1 var byrjað að kynna þann, sem rétt slapp inn í gegnum peningalistann og síðan endað á þeim sem var á toppnum. Hann hefir þegar verið kynntur, Chesson Hadley, efsti maður á peningalista Web.com Tour 2017.

Nú verður tekið til við að kynna þann sem rétt slapp inn í gegnum Web.com Finals og endað á þeim sem var á toppnum þar, en þeir 25 hljóta einnig spilarétt og kort fyrir 2017-2018 keppnistímabilið á PGA Tour.

Sá sem var í 17. sæti og komst inn á PGA Tour í gegnum Web.com Tour finals er Matt Jones frá Ástralíu, en hann var með verðlaunafé á Web.com Finals upp á samtals $47,740 .

Matt Jones fæddist 19. apríl 1980 í Sydney, Ástralíu og er því 37 ára.

Hann er 1,78 m á hæð og 77 kg.

Jones er kvæntur Melissu Weber Jones (frá árinu 2010) – sem var Miss Idaho 2009 – og á tvö börn: Savönnuh og Saber.

Matt Jones lék í bandaríska háskólagolfinu með liði Arizona State University.

Árið 2001 gerðist Jones atvinnumaður í golfi.

Hann á 2 sigra í beltinu sem atvinnumaður; sá fyrri kom 6. apríl 2014 en þar sigraði Jones eftir bráðabana við Matt Kuchar á Shell Houston Open á PGA Tour.

Seinni sigur Jones sem atvinnumanns kom á Ástralasíu túrnum 29. nóvember 2015 þ.e. á  Emirates Australian Open.

Besti árangur Jones í risamóti er T-21 árangur í PGA Championship 2015.