Ragnheiður Jónsdóttir | október. 27. 2017 | 14:00

Nýju strákarnir á PGA 2018: Abraham Ancer (22/50)

Það voru 25 efstu á peningalista Web.com Tour sem hlutu kortin sín og þar með fullan spilarétt á PGA Tour, keppnistímabilið 2017-2018.

Golf 1 hefir haft þann vana á undanförnum árum að kynna alla þessa 50 nýju og ekki svo nýju, sem hins vegar hljóta spilarétt sinn að nýju á PGA Tour í gegnum 2. deildina, Web.com Tour.

Byrjað verður á því að kynna þá 25 sem efstir voru á peningalista Web.com Tour og hljóta þannig kortið sitt í 1. deild, PGA Tour.

Líkt og venja er hér á Golf 1 verður byrjað að kynna þann, sem rétt slapp inn í gegnum peningalistann og síðan endað á þeim sem var á toppnum.

Síðan verður tekið til við að kynna þann sem rétt slapp inn í gegnum Web.com Finals og endað á þeim sem var á toppnum þar.

Sá sem varð í 4. sæti peningalistans með samtals verðlaunafé upp á samtals $337,998 (Verðlaunafé í Web.com Finals: $42,470; Verðlaunafé á reglul. tímabili:$295,528) var mexíkanski kylfingurinn Abraham Ancer.

Abraham Ancer fæddist í McAllen, Texas, 27. febrúar 1991 og er því 26 ára. Hann ólst upp í Reynosa, Mexíkó til 14 ára aldurs.

Foreldrar Ancer eru báðir mexíkanskir og hann sjálfur er með tvöfaldan ríkisborgararétt.

Ancer er 1,70 m á hæð og er 70 kg. Golf var fyrsta og eina íþróttin sem hann hefir stundað.

Meðal uppáhaldsminninga úr golfinu er að vinna pabba í fyrsta sinn og fá að hitta Jack Nicklaus.

Golfklúbburinn sem Ancer tilheyrir er Cimarron National GC (Guthrie, Oklahoma).

Ancer útskrifaðist úr Sharyland High School í Mission, Texas, þar sem hann var All-Valley í 4 ár og þrefaldur MVP.

Hann lék síðan golf í bandaríska háskólagolfinu með liði University of Oklahoma, Odessa College.

Ancer hefir spilað á Web.com Tour frá árinu 2014 og á einn sigur í beltinu þar frá árinu 2015 þ.e. á Nova Scotia Open.

PGA Tour tók viðtal við Ancer og birtist á vefsíðu mótaraðarinnar – Sjá má viðtalið með því að SMELLA HÉR: 

Hér má sjá kynningarmyndskeið með Abraham Ancer SMELLIÐ HÉR: 

Ýmsir fróðleiksmolar um Ancer:

*Ef hann væri ekki kylfingur myndi hann vilja vera kappakstursmaður.

*Myndi vilja skipta um hlutverk við Sebastian Vettel einn dag því „það er svo gaman að keyra F1 kappaksturbíl“

*Ancer safnar pútterum.

*Meðal þess sem Ancer myndi vilja gera er að stökkva fallhlífarstökk og fljúga þotu.

*Uppáhaldssögn Ancer hefur hann eftir Zig Ziglar, sem sagði: :“You are the only person on earth who can use your ability.“ (Lausleg þýðing: Þú ert eina manneskjan í heiminum, sem getur notað hæfileika þína.“

*Twitterfang Ancer er: @abraham_ancer

*Uppáhaldstómstundaiðja er: að fara á veiðar og knattspyrna.